Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, segir ekki fag­legan grunn til að á­kveða hvort að bólu­settir eigi að njóta réttinda um­fram óbólu­setta miðað við þau gögn sem eru til í dag, það er eftir tvær bólu­setningar.

Hann segir að fylgst verði á­fram með stöðunni eftir því sem að fleiri þiggja þriðja skammtinn og ef að árangurinn af því verði meira af­gerandi hvað varðar stöðu þeirra sem smitast þá verði hægt að ræða það.

„Ef í ljós kemur að smit eru mjög fá­tíð hjá þeim sem fá örvunar­skammt þá verður kominn grund­völlur til að ræða hvort þessir aðilar eigi að njóta réttinda um­fram þá sem eru óbólu­settir eða hafa fengið tvo skammta. Slík á­kvörðun verður þó alltaf pólitísk og sið­fræði­leg og verður ekki tekin af öðrum en stjórn­völdum,“ segir Þór­ólfur í pistli á vef co­vid.is.

Ekki ný umræða

Hann segir í pistlinum að um­ræða um það hvort að full­bólu­settir eigi að njóta réttinda um­fram óbólu­setta sé ekki ný af nálinni. Hún hafi oft komið upp þegar rætt hefur verið um hvort að eigi að skylda börn í bólu­setningar.

„Sótt­varna­læknir hefur löngum haft þá af­stöðu að vara­samt sé að gera bólu­setningar að skyldu af þeirri á­stæðu að þátt­taka hér í al­mennum bólu­setningum er með á­gætum og því gæti slík á­kvörðun skapað önnur vanda­mál sem leitt gætu til minni þátt­töku og meiri smit­hættu í sam­fé­laginu,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að um­ræða um aukin réttindi bólu­settra verði að byggja á fag­legum for­sendum og fer yfir þann á­vinning sem fylgir bólu­setningum. Hann segir að þegar kemur að Co­vid-19 sé á­vinningurinn ó­tví­ræður.

Hann segir að það sé ekki hægt að ganga svo langt að segja að nú­verandi bylgja sé or­sökuð og drifin á­fram af smitum frá óbólu­settum þó svo að óbólu­settir séu um þre­falt lík­legri til að smitast af Co­vid-19 og fimm sinnum lík­legri til að leggjast inn á sjúkra­hús.

„Því er ekki lík­legt að jafn­vel þó allir hér á landi yrðu full­bólu­settir með tveimur skömmtum, að smit í sam­fé­laginu myndu stöðvast og á­sættan­lega staða myndi skapast á sjúkra­húsum. Því tel ég ekki fag­legar for­sendur vera fyrir því á þessari stundu að mis­muna bólu­settum og óbólu­settum í sam­fé­laginu,“ segir Þór­ólfur.

Hann segir að ekki sé hægt að full­yrða að örvunar­bólu­setning með þriðja skammtinum muni að mestu vernda gegn smiti og ekki hægt að full­yrða hvort að hún breyti þeim fag­legu for­sendum sem eru nefndar að ofan. Hann hvetur þó alla til að mæta í slíka bólu­setningu og segist munu halda á­fram að fylgjast með bólu­setningar­stöðu þeirra sem greinast og því verði hægt að svara spurningunni um árangur örvunar­skammtsins að nokkrum vikum eða mánuðum liðnum.

Pistilinn er hægt að lesa hér í heild sinni.