„Staðan er bara sú að við erum ekki ennþá með neitt þak yfir höfuðið á daginn,“ segir Ragnar Erling Hermannsson, heimilislaus maður í Reykjavík og félagi í Viðmóti, samtökum um mannúðlega vímuefnastefnu á Íslandi.
Viðmót hefur undanfarið barist fyrir því að opnað verði húsnæði í Reykjavík þar sem heimilislausir karlar geta verið yfir daginn en gistiskýli borgarinnar eru lokuð á milli klukkan tíu á morgnana og fimm seinnipartinn.
„Það virðist ekki verið hlustað á okkur og enn síður brugðist við,“ segir Ragnar. Á fundi Velferðarráðs borgarinnar var lagt til að útvegað yrði neyðarhúsnæði fyrir heimilislausa karlmenn í borginni. Lagt var til að velferðarráð samþykkti að verja alls 155 milljónum króna til rekstursins. Í fundargerð segir að kostnaður rúmist ekki innan fjárheimilda.
„Við höfum ekkert heyrt af neinu en höldum í vonina,“ segir Ragnar.