„Staðan er bara sú að við erum ekki enn­þá með neitt þak yfir höfuðið á daginn,“ segir Ragnar Er­ling Her­manns­son, heimilis­laus maður í Reykja­vík og fé­lagi í Við­móti, sam­tökum um mann­úð­lega vímu­efna­stefnu á Ís­landi.

Við­mót hefur undan­farið barist fyrir því að opnað verði hús­næði í Reykja­vík þar sem heimilis­lausir karlar geta verið yfir daginn en gisti­skýli borgarinnar eru lokuð á milli klukkan tíu á morgnana og fimm seinni­partinn.

„Það virðist ekki verið hlustað á okkur og enn síður brugðist við,“ segir Ragnar. Á fundi Vel­ferðar­ráðs borgarinnar var lagt til að út­vegað yrði neyðar­hús­næði fyrir heimilis­lausa karl­menn í borginni. Lagt var til að vel­ferðar­ráð sam­þykkti að verja alls 155 milljónum króna til rekstursins. Í fundar­gerð segir að kostnaður rúmist ekki innan fjár­heimilda.

„Við höfum ekkert heyrt af neinu en höldum í vonina,“ segir Ragnar.