Ekki er vitað hversu stór hluti starfsmanna Landspítalans eru frá vinnu með óvirkt smit og þar með ósmitandi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagði á þingfundi í dag að hann hefði ekki fengið staðfestar tölur um hlutfall virkra og óvirkra smita meðal starfsmanna Landspítalans.

Alls eru 213 starfsmenn Landspítalans í einangrun. Einstaklingar geta mælst jákvæðir löngu eftir að þeir hafa unnið bug á veirunni vegna veiraerfðaefnis í dauðum frumum í öndunarvegi.

„Ekki einu sinni skoðað“

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, segir hreint ótrúlegt í ljósi neyðarstigs að ekki sé verið að athuga hvort starfsmenn Landspítalans, sem eru frá vinnu vegna Covid-19, séu smitandi eða ekki.

„Það er verið að tína til starfsmenn hér og þar úr einkageiranum til að bjarga í horn, ráða björgunarsveitir til að sitja yfir og þar fram eftir götunum og mögulega eru 50 til 70 starfsmenn Landspítalans í einangrun með gamalt smit. Óvirkt smit. Og þetta er ekki einu sinni skoðað,“ sagði Bergþór á þingfundi í dag.

„Er staðan mögulega enn sú að 50 til 70 starfsmenn Landspítalans séu í einangrun í stofufangelsi vegna gamals óvirks smits?“

Bergþór benti á að miðað við hlutfall ferðamanna með óvirkt smit á landamærum mætti draga þá ályktun að fjórðungur eða jafnvel þriðjungur allra jákvæðra PCR-prófa sé vegna óvirkra smita.

Hann spurði ráðherra í síðustu viku hvort ekki væri gerður greinarmunur á virkum og óvirkum smitum hjá starfsmönnum Landspítalans.

„Er staðan mögulega enn sú að 50 til 70 starfsmenn Landspítalans séu í einangrun í stofufangelsi vegna gamals óvirks smits? Starfsmenn sem gætu ekki smitað aðra þó að þeir vildu. Hæstvirtur ráðherra, getur þetta verið?“ spurði Bergþór í óundirbúnum fyrirspurnum á þingfundi í dag.