Ás­geir Thor­odd­sen, kven­sjúk­dóma­læknir og sér­fræðingur í krabba­meins­lækningum kvenna, telur að það eina í stöðunni hvað varðar greiningu sýna vegna leghálsskimana sé að segja upp samningnum við rann­sóknar­stofuna í Dan­mörku og hefja án frekari tafa undir­búning að því að hefja rann­sóknir að nýju hér á landi. Þetta sagði Ásgeir á fundi Samfylkingarinnar í kvöld þar sem rætt var um stöðu leghálsskimana.

Ásgeir lýsti þar stöðunni sem al­var­legri. Hann sagði að það væri mikil ó­reiða í fram­kvæmd breytinganna og að enn eigi eftir að koma skikki á ferlið. Hann í­trekaði mikil­vægi þess að ferlið sé sam­hæft, að það sé eitt kerfi sem heldur utan um allar allar upp­lýsingar kvenna svo að læknar geti kallað eftir frekari upp­lýsingum.

Hann sagði að það geti skipt miklu að hafa að­gang að sögu sjúk­lings og að sagan sé, meðal annars, nýtt til að þess að tryggja að rétt sýni séu tekin. Hann sagði það ljóst að kerfin tali ekki saman eftir breytingarnar og að það hægi enn meira á því að konur fái svör.

Hann sagði að á meðan krabba­meins­skimanirnar voru hjá Krabba­meins­stöðinni var haldið utan um allt á einum stað en nú sé kerfið ó­heild­stætt, flókið og sein­virkt.

Konur með kvíða og áhyggjur

Erna Bjarna­dóttir for­sprakki að­gerða­hópsins „Að­för að heilsu kvenna”, sagði frá bar­áttu hópsins sem hefur staðið yfir núna í þó­nokkurn tíma. Hún hélt á lofti þeim af­leiðingum sem þessi á­kvörðun hefur haft í för með sér fyrir konur en sí­fellt eru að koma fram fleiri sögur um konur sem búa við mikinn kvíða og á­hyggjur vegna þess að þær fá engin svör.

Undir­skriftum þúsunda kvenna var skilað til heil­brigðis­ráð­herra um að hætt yrði að senda sýnin til Dan­merkur í mars og gagn­rýndi Erna að heil­brigðis­yfir­völd virðist ætla að halda sig við þetta gallaða fyrir­komu­lag sem sé bein ógn við heilsu kvenna.

Enn að taka á móti sérfræðingum

Helga Vala Helga­dóttir for­maður Vel­ferðar­nefndar Al­þingis, sagði frá því að í Vel­ferðar­nefnd væri verið að taka á móti sér­fræðingum sem allir væru á einu máli um að það þyrfti að hætta að senda sýnin til Dan­merkur og hefja rann­sóknir hér á landi að nýju. Það væri í raun ó­trú­legt að heyra frá­sagnir sér­fræðinga sem virðast allir and­vígir þessari á­kvörðun. Meiri hluti fagráðs hafði í að­draganda á­kvörðunar heil­brigðis­ráð­herra skilað sömu niður­stöðu um nauð­syn þess að rann­sóknirnar færu fram hér á landi en því miður þá hafi verið farið gegn ráð­leggingum sér­fræðinga og sýnin send úr landi.

Komið hefur fram fram að Haraldi Briem hefur verið falið að gera skýrslu um ferlið, hvernig á­kvörðunin var tekin og hvaða á­hrif þessi á­kvörðun hefur á rann­sóknir sýna og heilsu kvenna, en allir þing­menn stjórnar­and­stöðu kölluðu eftir skýrslu frá utan­að­komandi aðila fyrir 10 vikum síðan. Var tæpt á því á fundinum að Haraldur Briem hafi á sínum tíma verið einn af þeim sér­fræðingum sem unnu með skimunar­ráði og hefði þannig komið að málinu á fyrri stigum.

Eina í stöðunni að segja upp samningnum í Dan­mörku

Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, þing­kona Sam­fylkingarinnar talaði um að staðan væri al­var­leg fyrir heilsu og öryggi kvenna. Þetta væri í raun ekki eins­dæmi um að heil­brigðis­kerfið bregðist konum. Við höfum séð það líka í sam­bandi við fæðingar og aðra sjúk­dóma kvenna.

Voru fundar­gestir sam­mála um það að það þurfi að snúa blaðinu við. Sagði Ás­geir Thor­odd­sen það eina í stöðunni að segja upp samningnum við rann­sóknar­stofuna í Dan­mörku og hefja án frekari tafa undir­búning að því að hefja rann­sóknir að nýju hér á landi. Hann sagði að hér væri þekkingin, reynslan, tækja­kostur og hús­næði til að sinna þessum rann­sóknum og það þyrfti ein­göngu pólitíska á­kvörðun um að gera slíkt.

Hann sagði að það væri nauð­syn­legt í þágu heilsu kvenna sem stefnt væri í hættu með þessum að­gerðum.

Í lok fundar kom fram þakk­læti til heil­brigðis­starfs­fólks sem hefur stigið fram en Heiða Björg Hilmis­dóttir, sem áður starfaði á Lands­spítalanum, sagði það mikið átak að stíga fram sem starf­maður Lands­spítalans og þess vegna sé greini­lega eitt­hvað al­var­legt að þegar læknar stígi fram með þessum hætti.

Hægt er að horfa á fundinn hér að neðan.