Línur eru farnar að skýrast í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar þingsins og líkur aukast á því að nefndin klofni í niðurstöðum sínum. Þó ekki á línum stjórnar og stjórnarandstöðu því Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og þingmaður Vinstri grænna, er mjög beggja blands í afstöðu sinni. Heimildir blaðsins úr nefndinni herma að Svandís hafi talað mjög fyrir uppkosningu en aðspurð segist hún hafa talað opið fyrir báðum niðurstöðum en finnast allt of bratt að hrapa að niðurstöðu um staðfestingu kjörbréfa.

Inga Sæland vill byggja á síðari talningu

Á móti kemur að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur ekki legið á skoðun sinni um að byggja eigi á síðari talningu í Norðvesturkjördæmi. Samkvæmt heimildum blaðsins eru fulltrúar bæði Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nefndinni á sömu línu og Inga og verði einhugur í þessum þremur flokkum þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu í þinginu er meirihluti tryggður fyrir staðfestingu kjörbréfa allra þingmanna, en flokkarnir hafa sameiginlega 35 þingmenn.

Óvíst með þingmenn Vinstri grænna

Líklegt er talið að þingmenn Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar muni kjósa gegn staðfestingu kjörbréfa. Hvort þingmenn Vinstri grænna muni fylgja fordæmi Svandísar, hvorum megin sem hún lendir, er hins vegar óvíst.

Innan þingflokka mun allur gangur vera á því hvort ein sameiginleg lína verði tekin í málinu eða hvort þingmenn muni kjósa eftir eigin sannfæringu, óháð afstöðu félaga sinna.

Ólík sjónarmið eru einnig uppi meðal þeirra sem vilja ógildingu vegna ágalla í Norðvesturkjördæmi, um hvað gera skuli í framhaldinu og hvort unnt sé að greiða atkvæði í þinginu sem leiði til endurtekningar kosninga um land allt.