Vaxandi fjöldi landa styður nú við hugmyndina um að fella niður einkaleyfi á Covid-19 bóluefnum. Markmiðið þar að baki er að framleiðsla og aðgengi að bóluefni á heimsvísu muni aukast, sér í lagi í fátækari löndum.

Tillagan var fyrst lögð fram síðasta haust þegar þróunarlönd með Indland og Suður-Afríku í fararbroddi báru hana upp en mættu andstöðu, meðal annars frá Bandaríkjastjórn Donalds Trump.

Hugmyndinni óx ásmegin í vikunni þegar Bandaríkin breyttu afstöðu sinni og lýstu yfir stuðningi við tillöguna. Joe Biden Bandaríkjaforseti hafði lofað í kosningaherferð sinni að hann myndi beita sér gegn einkaleyfunum.

„Það er heimskr­ís­a í heil­brigð­is­mál­um og fordæmalausar að­stæð­ur far­ald­urs­ins kall­a á rót­tæk við­brögð,“ sagði Katherine Tai, fulltrúi Bandaríkjastjórnar í viðskiptamálum, í yfirlýsingu vegna málsins. „Bandaríkjastjórn tel­ur vernd eink­a­leyf­a mik­il­væg­a en til að bind­a enda á far­ald­ur­inn styð­ur hún afnám eink­a­leyf­a á ból­u­efn­um gegn Covid-19.“

Skelfileg staða er uppi á Indlandi.
Fréttablaðið/EPA

Bandarísk yfirvöld hafa nú lýst yfir að þau muni beita sér fyrir hugmyndinni við Alþjóðaviðskiptastofnunina þar sem talið er að um 100 af 164 aðildarríkjum séu fylgjandi hugmyndinni.

Evrópusambandið hefur sagst vera reiðubúið að ræða tillöguna og hafa ríki á borð við Ítalíu og Frakkland veitt henni fullan stuðning. Utan sambandsins hefur Vladímír Pútín Rússlandsforseti lýst yfir stuðningi við tillöguna.

Á meðal þeirra ríkja sem hafa lagst gegn hugmyndinni er Þýskaland. Þar er talið að einkaleyfin hafi ekki hamlandi áhrif á framleiðslu bóluefnis í heiminum og að mikilvægt sé að vernda hugverkaréttinn sem sé uppspretta nýsköpunar.

Bresk stjórnvöld hafa áður beitt sér gegn afnámi einkaleyfanna. Þau hafa núna lýst yfir að þau séu reiðubúin að vinna með Alþjóðaviðskiptastofnuninni til að takast á við vandann, meðal annars með því að finna leiðir til að auka enn frekar á framleiðslu bóluefnis.

Þá hafa lyfjafyrirtækin sem framleiða bóluefnin sagt að verndin sem einkaleyfin veiti hafi verið hvati til að framleiða þau á mettíma. Thom­as Cueni, yfirmaður Alþjóðasambands lyfjaframleiðenda, hefur lýst því yfir að helsta vandamálið um þessar mundir sé dreifing bóluefnisins og tregða ríkra landa til að útbýta skömmtum til fátækari þjóða.