Í dag hittu borgarfulltrúar börn við Vatnshólinn við Sjómannaskólann en þau höfðu í dag skipulagt bæði mótmæli og kynningarfund með borgarfulltrúum til að fara yfir mikilvægi svæðisins fyrir þau en áætlað er að byggja um 50 íbúðir á svæðinu. Fyrsta skóflustungan var tekin í síðasta mánuði.

Lóa Margrét Hauksdóttir er ein þeirra sem hefur skipulagt mótmælin frá upphafi og sá hún í dag um að kynna borgarfulltrúana fyrir svæðinu sem á að byggja á og sagði þeim sögur af því sem hún hefur gert þar í gegnum árin. Hún sýndi þeim einnig jurtir sem hún hefur safnað á svæðinu, bauð þeim upp á kaffi og vöfflur og svo salíbunu niður Vatnshólinn.

Mér finnst það ósanngjarnt. Það segir á heimasíðu Reykjavíkur að borgin eigi að vera græn borg en samt er verið að byggja á öllum grænum svæðum.

„Ég sagði þeim að það er nú þegar búið að taka eitt grænt svæði sem var hinum megin við götuna. Það var tekið af skólalóðinni á Háteigsskóla. Skólanum sem ég er í. En þau útskýrðu fyrir mér að það væri mikilvægt að byggja íbúðir og sögðu að þetta væri ekki eins og með spítala sem ætti kannski að byggja á svæði 1 en væri svo fært á svæði 2. Þetta væri ekki þannig út af því að það vantar íbúðir,“ segir Lóa Margrét í samtali við Fréttablaðið.

Hvað finnst þér um það?

„Mér finnst það ósanngjarnt. Það segir á heimasíðu Reykjavíkur að borgin eigi að vera græn borg en samt er verið að byggja á öllum grænum svæðum. Sama dag og fyrsta grafan kom á svæðið þá birtist inn á Reykjavík.is grein þar sem sagði að græn svæði eru eins og vítamínsprauta fyrir framtíðina og hafa mikil áhrif á framtíðarlýðheilsu borgarbúa. Mikilvægt er að standa vörð um réttinn til leiks og hreyfingar fyrir börn,“ segir Lóa Margrét og vísar til fréttar á vef síðunnar þar sem fjallað er um græn svæði og mikilvægi þeirra fyrir líkamlegan og andlegan þroska barna.

Lóa Margrét ræðir við borgarstjóra.
Mynd/Aðsend

Spurð hvort að borgarfulltrúarnir hafi ætlað að setja grænt svæði annars staðar í staðinn sagði Lóa Margrét að þau hafi ekki talað um það í dag.

Hún segir að það hafi gengið vel á mótmælunum í dag og það hafi verið fjölmenni.

En eruð þið búnar að gefast upp?

„Nei, við erum búnar að vera að safna undirskriftum, ég og vinkonur mínar, til að mótmæla þessu og ætlum að afhendi Degi listann,“ segir Lóa Margrét.

Hægt er að skrifa undir listann hjá þeim. Nú þegar hafa yfir 200 skrifað undir. Fyrir tveimur árum afhentu þær Degi annan eins lista á fundi í Ráðhúsinu.

Lóa Margrét segir að sumir segi við þær að Klambratún sé nóg en hún segir að það sé ekki hægt að bera þetta tvennt saman.

„Það er almenningsgarður og flatur staður. Það er ekki það sama og búið að hólfa garðinn niður. Svo þora ekki allir að senda börnin sín ein þangað. Svæðið sem Vatnshólinn er á er sjálfgróinn staður og mjög fallegur. Þar verða mörg ævintýri til,“ segir Lóa Margrét.

Borgarfulltrúarnir fengu kynningu.
Mynd/Aðsend

Leiksvæðið er okkar

Eftir að borgarfulltrúarnir fengu kynningu um svæðið fóru fram mótmæli en fyrsta skóflustunga vegna framkvæmda á svæðinu var tekin þann 17. mars síðastliðinn. Á mótmælunum sungu krakkarnir „Leiksvæðið er okkar“ við lag Emmsjé Gauta „Reykjavík er okkar“.

„Einn sagðist hafa horft yfir svæðið og sungið jarðarfararsálma. Á meðan hann kvaddi svæðið og jarðsetti í huganum,“ segir í tilkynningu frá hópnum.

Fyrsta skóflustunga var tekin, eins og fyrr segir þann 17. Mars, en börnin hafa mótmælt allt frá því að tilkynnt var um framkvæmdirnar og hafa áður afhent borgarstjóra undirskriftalista þess efnis.

Fyrir viku mætti fyrsta grafan og hafa börnin í hverfinu mótmælt kröftuglega við hólinn dag hvern síðan. Með skiltum, slagorðum, gjallarhornum og fleira.

„Börnin tala um Vatnhólinn sem hjartað í hverfinu. Hann dregur að sér börn jafnt sem fullorðna frá sólarupprás til sólseturs. Vatnshóllinn er sleðabrekka, hann er jógastudío, hann er ballettsalur, hann er uppspretta endalausra ævintýra og andlegrar næringar. Frá Vatnshólnum er útsýni yfir alla Reykjavík - ókeypis. Vatnshóllinn er fullkominn staður til að njóta norðurljósanna og stjarnanna enda ofar ljósastaurunum,“ segir í tilkynningu frá hópnum en hægt er að fylgjast með þeim á Facebook-síðu þeirra https://www.facebook.com/vinirvatnsholsins/

Talsverður fjöldi var mættur á mótmælin.
Mynd/Aðsend
Posted by Vinir Vatnshólsins on Thursday, 15 April 2021