Enn á eftir að taka á­kvörðun um notkun bólu­efnis AstraZene­ca hér á landi eftir að greint var frá myndun blóð­tappa í kjöl­far bólu­setningar en Lyfja­stofnun Evrópu greindi frá því í gær að bólu­efnið væri öruggt þrátt fyrir að það væri ekki hægt að úti­loka or­saka­sam­band þar á milli.

Að sögn Þór­ólfs Guðna­sonar sótt­varna­læknis er enn verið að meta gögnin og vinna ís­lensk yfir­völd náið með yfir­völdum annarra Norður­landa. Norð­menn, Svíar, og Danir hafa þegar gefið það út að þau muni bíða með að taka á­kvörðun þar til frekari at­hugun hefur verið gerð.

„Ég fundaði með kollegum mínum í gær á Norður­löndunum og það er bara verið að skoða betur hvort það sé hægt að kort­leggja betur hvaða hópur þetta er sem að fær þessar auka­verkanir og hvort það sé hægt að af­marka hann,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Önnur Norður­lönd hafa gefið sér frest fram til í næstu viku til að meta gögnin og að sögn Þór­ólfs mun Ís­land lík­lega fylgja þeim. „Sú vinna er bara í gangi en það er ekki búið að taka endan­lega á­kvörðun hér um það hvernig þetta verður.“

Ís­land var meðal þeirra landa sem stöðvaði notkun bólu­efnisins tíma­bundið eftir að greint var frá því að nokkrir ein­staklingar hafi veikst al­var­lega og jafn­vel látist eftir bólu­setningu.

Eins og staðan er í dag hafa tæp­lega 9.300 ein­staklingar verið bólu­settir með bólu­efninu hér á landi. Að minnsta kosti ein tilkynning um blóðtappa í kjölfar bólusetningar með AstraZeneca hefur verið tilkynnt.