Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld að ekki væri von á eldgosi en að íbúar mættu gera ráð fyrir fleiri skjálftahrinum og væri því besta að tryggja hlutina á heimilinu.

Segir hann skjálftahrinuna síðustu daga vera sú öflugasta sem hefur komið í áratugi, álíka þeirri sem kom árið 1933 og 1973.

Vísindaráð almannavarna fundaði í dag vegna skjálftahrinunnar á Reykjanesi ásamt vísindamönnum Veður­stof­unn­ar, full­trú­um sveit­ar­fé­laga, viðbragðsaðilum og full­trú­um úr raf­orku- og fjar­skipta­geir­an­um.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag að ein sviðsmyndin væru sú að stórir skjálftar, allt að 6,5 að stærð, gætu orðið milli Kleifarvatns og Bláfjalla. Þá gætu lausamunir dottið úr hillu og innanstokksmunir hreyfst til.

Engar styttur fyrir ofan rúmin

Magnús Tumi sagði í spjalli við Stöð 2 að þó að skjálfti kæmi þá er ekki um að ræða miklar hamfarir.

„Þó að hann yrði sterkari en sá sem við fengum í morgun og á miðvikudag þá erum við ekki að horfa upp á nein stórslys,“ sagði Magnús og ítrekaði mikilvægi þess að tryggja innanstokksmuni.

„Húsin okkar þola þetta en við þurfum að vera undirbúin undir þetta sjálf.“ Þá sé mikilvægt að festa hillur við veggi og ekki hafa neina stóra hluti á hillum, þá sérstaklega fyrir ofan rúmin.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur flogið yfir svæðið með jarðvísindamönnum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Engin merki um kvikusöfnun

Magnús áréttar að engin merki séu um kvikusöfnun og að það sé engin ástæða til að halda að það sé að koma eldgos. Auðvitað muni koma eldgos í framtíðinni, en hvort sem það eru eftir einhverja mánuði eða ár vitum við ekki. Við búum jú á Íslandi.

„Eldgos á Reykjanesi eru lítil, þau eru hraungos, en þau eru nálægt byggð. Lífshætta er varla fyrir hendi nema að fólk fari nálægt hrauninu.“

Flestir skjálftar sem mælst hafa síðustu daga eru á um 5 km. dýpi við Fagradalsfjall og hafa ekki færst nær yfirborði, en slíkt gæti verið vísbending um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið.  Í hrinu sem varð við  Fagradalsfjall árið 1933 urðu all nokkrir kröftugir skjálftar á skömmum tíma, sambærilegir þeim sem nú ganga yfir. Þeirri hrinu lauk án þess að til eldgoss kæmi. Sama má segja um hrinu sem varð árið 1973.