Bresk mannréttindasamtök hafa gagnrýnt Facebook eftir að ný könnun leiddi í ljós ekki er brugðist við meira en helmingi þeirra tilkynninga sem þeim berast frá konum um áreitni sem þær verða fyrir á samfélagsmiðlinum.

Könnunin var framkvæmd af breskum femíniskum samtökum, Level Up. Niðurstöður hennar sýndu að um 29 prósent af þeim eitt þúsund konum sem tók þátt í könnuninni höfðu orðið fyrir einhvers konar áreitni á Facebook.

„Við heyrum það aftur og aftur að samfélagsmiðlafyrirtækin lofi að gera betur, en tilraunir þeirra hafa ekki verið nægilega góðar. Konum líður enn eins og það sé þaggað niður í þeim á netinu því þær eru svo hræddar að vera fyrir áreitni,“ sagði talskona Amnesty International í Bretlandi.

Hún sagði niðurstöðurnar valda þeim miklum áhyggjum og sýndu fram á nýja gerð mannréttindabrota.

Í 52 prósent tilfella ekki brot á reglum miðilsins

Konurnar greindu frá því að hafa fengið sendar dónalegar myndir, að myndir af þeim hafi verið birtar í leyfisleysi og að þeim hafi ítrekað verið send skilaboð sem hafi valdið því að þær hafi óttast um öryggi sitt. Í 52 prósent tilvika, þegar þær tilkynntu Facebook um atvikin, var þeim sagt að ekki hefði verið brotið á reglum miðilsins.

54 prósent þeirra kvenna sem svöruðu sögðu að þær bæru lítið traust til getu Faceook til að glíma við áreitni með samúð og 72 prósent þeirra sögðu að fleiri starfsmenn þyrfti til að taka við og á kvörtunum.

Niðurstöðurnar voru sérstaklega erfiðar fyrir ungar konur og litaðar konur. 56 prósent kvenna undir 25 ára og 40 prósent svartra og litaðra kvenna greindu frá því að þær hafi verið áreittar að minnsta kosti einu sinni á Facebook.

Vilja að Facebook uppfæri viðbragðsáætlun

Level up hafa það markmið að berjast gegn kynjamisrétti. Samtökin saka Facebook um að taka áreitni ekki alvarlega.

„Level up kallar eftir því að Facebook hlusti á konur og bregðist hraðar við til að tryggja öryggi okkar á internetinu,“ sagði Janey Sterling, verkefnastjóri hjá Level up.

Hún segir að það þurfi að uppfæra verklagsáætlun fyrirtækisins um viðbrögð við áreitni og að slík áætlun þurfi að taka til hvers kyns áreitni. Þá þurfi að auðvelda fórnarlömbum að tilkynna áreitni.

Facebook segir að þau hafi innleitt fídusa sem eigi að vernda fólk fyrir áreitni, ásamt því sem megi finna slíka vernd í reglum samfélagsmiðilsins.

„Við vinnum með samtökum sem vilja tryggja öryggi kvenna hér í Bretlandi og höfuð þróað fídusa sem eiga að koma í veg fyrir óvelkomin samskipti, það er hægt að hunsa skilaboð í samtalsforritinu messenger, og það er hægt að fela eða eyða skilaboðum,“ sagði talsmaður Facebook

Talsmaðurinn sagði einnig að reglur miðilsins leyfi ekki einelti eða áreitni og að þau fjarlægi efni, prófíla og síður um leið og þau eru látin vita af slíku efni eða hegðun.

„Ef það er raunveruleg hætta á líkamlegu ofbeldi eða bein hótun um öryggi almennings þá fjarlægjum við efni, gerum reikninga óvirka og vinnum með lögregluyfirvöldum,“ sagði talsmaðurinn.

Greint er frá á Guardian. Hægt er að kynna sér herferð Level up nánar hér að neðan.