Heil­brigðis­ráðu­neytið segir að ekki sé brotið gegn jafn­ræðis­reglu með því að heimila ekki starf­semi heilsunuddara og rakara. Þetta er meðal þess sem fram kemur í svörum ráðu­neytisins við skrif­legum spurningum Frétta­blaðsins.

Líkt og greint hefur verið frá er hár­greiðslu­fólk á höfuð­borgar­svæðinu auk heilsunuddara gáttað á því að vera ekki heimiluð starf­semi undir nýrri reglu­gerð frá heil­brigðis­ráðu­neytinu, á meðan annað gildi meðal annars um líkams­ræktar­stöðvar á grund­velli jafn­ræðis­reglu.

Í svörum ráðu­neytisins kemur fram að heimild líkams­ræktar­stöðva til að halda úti starf­semi sé mjög tak­mörkuð. Hún byggi á því að hægt sé að fara í einu og öllu eftir þeim reglum sem sótt­varna­læknir hefur lagt til.

„Þ.e að „Í­þrótta­iðkun án snertingar verði leyfð að há­marki 20 í hópi án á­horf­enda. Tveggja metra reglan skuli virt. Sam­eigin­legir snerti­fletir í í­þróttum verði sótt­hreinsaðir á milli kepp­enda.“ Heimild reglu­gerðarinnar hvað þetta varðar er því í fullu sam­ræmi við minnis­blað sótt­varna­læknis.“

Ekki sam­bæri­legar stéttir við lög­giltar heil­brigðis­stéttir

Að­spurð að því hvort komið hafi til greina að líta til jafn­ræðis­reglunnar vegna starf­semi heilsunuddara líkt og gert hafi verið við opnun líkams­ræktar­stöðva segir ráðu­neytið að til­laga sótt­varna­læknis til ráð­herra hafi verið sú að undan­þyggja starf­semi sem fellur undir heil­brigðis­þjónustu frá tveggja metra reglunni.

„Reglu­gerð ráð­herra er í sam­ræmi við til­lögur sótt­varna­læknis.Heilsunuddarar eru ekki heil­brigðis­stétt og því ekki undan­þegnir. Varðandi jafn­ræðis­reglu stjórn­sýslu­réttar þá felst í henni m.a. að stjórn­völd skuli gæta sam­ræmis og jafn­ræðis í laga­legu til­liti, sbr. til hlið­sjónar 11. gr. stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993. Það þýðir m.a. að leysa skal úr sam­bæri­legum málum með sam­bæri­legum hætti.

Með hlið­sjón af þeim ó­líku laga­reglum sem gilda um lög­giltar heil­brigðis­stéttir annars vegar og aðrar starfs­stéttir hins vegar, einkum þegar kemur að skyldum á grund­velli sótt­varna­laga og eftir­liti af hálfu land­læknis, eru þær starfs­stéttir sem ekki hafa hlotið lög­gildingu ekki sam­bæri­legar við lög­giltar heil­brigðis­stéttir í þessum skilningi.

Það er því ekki brot á jafn­ræðis­reglum að kveða á um að aðrar reglur opin­berra sótt­varna­ráð­stafana gildi um lög­giltar heil­brigðis­stéttir en um aðrar starfs­stéttir.“

Kom ekki til á­lita að leyfa opnun hár­greiðslu­stofa

Kom til á­lita að fara gegn til­lögu sótt­varna­læknis um lokun hár­greiðslu­stofa til að gæta jafn­ræðis og meðal­hófs, með til­liti til þess til að mynda að hár­greiðslu­stofur utan höfu­borgar­svæðisins eru opnar?

„Nei. Það gilda strangari tak­markanir á höfuð­borgar­svæðinu að ráði sótt­varna­læknis í ljósi þess að út­breiðsla smita hefur verið lang­mest á höfuð­borgar­svæðinu sem hefur kallað á sér­stakar ráð­stafanir.

Þetta er einnig í sam­ræmi við fyrri um­fjöllun um jafn­ræðis­reglu stjórn­sýslu­réttar um að leysa úr sam­bæri­legum málum með sam­bæri­legum hætti, því að­stæður á höfuð­borgar­svæðinu varðandi mikla út­breiðslu smita eru allt aðrar en annars staðar á landinu.“