Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna ’78, segir það ekki í boði að nota árás á einn minnihlutahóp sem afsökun til að níðast á öðrum. Hann segir svoleiðis orðræðu spretta öðru hverju upp eftir atvik á borð við árásina í Osló um síðastliðna helgi.
„Það virðist einhvern veginn alltaf vera þegar ráðist er á einhvern minnihlutahóp, og sú manneskja sem ræðst gegn þessum hópi er úr öðrum minnihlutahóp, þá nýtir fólk tækifærið til að níðast á þeim minnihlutahóp,“ segir Álfur í samtali við Fréttablaðið.
Um síðastliðna helgi hleypti maður af byssu fyrir utan hinsegin bar í Osló með þeim afleiðingum að tveir dóu og tuttugu særðust. Álfur segir í þræði á Twitter að árásin hafi verið hræðileg, beind að hinsegin fólki og ætluð til að vekja hræðslu.
„Það að árásarmaðurinn hafi ekki verið kristinn gefur engum leyfi til að nota þessa árás til að kynda undir innflytjendahatur,“ skrifar Álfur. „Hinsegin fólk stendur gegn öllu hatri.“
Að sögn Álfs kemur hatrið yfirleitt ekki frá því fólki sem stendur í sjálft í sinni eigin mannréttindabaráttu.
Álfur segir verstu svörtu sauðina vera þau sem segja að ekki sé hægt að vera opið frjálst samfélag með mannvæna innflytjendastefnu. Þá segir hann fleiri hryðjuverk framin af hvítum, sískynja, gagnkynhneigðum, kristnum karlmönnum en öllum öðrum trúarbrögðum og nefnir þar sem dæmi trans morð og skólaárásir í Bandaríkjunum og árásir nýnasista.
Í samtali við Fréttablaðið segir Álfur það engan veginn í anda mannréttindabaráttu að nýta sér ótta minnihlutahóps til að níðast á öðrum. „Við megum ekki láta ótta taka yfir og vekja hatur gagnvart öðru fólki þótt við eigum um sárt að binda á tímabili, heldur miklu frekar sýna samstöðu með öllum minnihlutahópum, taka saman höndum og sigrast á þessu hatri,“ segir hann.
Það er ekki boðlegt að sveipa sig hinseginkærleik til þess eins að básúna annars konar hatri og svipta sig síðan regnboganum stuttu síðar
— Álfur Birkir (@AlfurBirkir) July 1, 2022
Víða eru svartir sauðir en alverstu sauðirnir eru þau sem segja að ekki sé hægt að vera opið frjálst samfélag með mannvæna innflytjendastefnu