Álfur Birkir Bjarna­son, for­maður Sam­takanna ’78, segir það ekki í boði að nota árás á einn minni­hluta­hóp sem af­sökun til að níðast á öðrum. Hann segir svo­leiðis orð­ræðu spretta öðru hverju upp eftir at­vik á borð við á­rásina í Osló um síðast­liðna helgi.

„Það virðist ein­hvern veginn alltaf vera þegar ráðist er á ein­hvern minni­hluta­hóp, og sú manneskja sem ræðst gegn þessum hópi er úr öðrum minni­hluta­hóp, þá nýtir fólk tæki­færið til að níðast á þeim minni­hluta­hóp,“ segir Álfur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Um síðast­liðna helgi hleypti maður af byssu fyrir utan hin­segin bar í Osló með þeim af­leiðingum að tveir dóu og tuttugu særðust. Álfur segir í þræði á Twitter að á­rásin hafi verið hræði­leg, beind að hin­segin fólki og ætluð til að vekja hræðslu.

„Það að á­rásar­maðurinn hafi ekki verið kristinn gefur engum leyfi til að nota þessa árás til að kynda undir inn­flytj­enda­hatur,“ skrifar Álfur. „Hin­segin fólk stendur gegn öllu hatri.“

Að sögn Álfs kemur hatrið yfirleitt ekki frá því fólki sem stendur í sjálft í sinni eigin mannréttindabaráttu.

Álfur segir verstu svörtu sauðina vera þau sem segja að ekki sé hægt að vera opið frjálst sam­fé­lag með mann­væna inn­flytj­enda­stefnu. Þá segir hann fleiri hryðju­verk framin af hvítum, sí­skynja, gagn­kyn­hneigðum, kristnum karl­mönnum en öllum öðrum trúar­brögðum og nefnir þar sem dæmi trans morð og skóla­á­rásir í Banda­ríkjunum og á­rásir ný­nasista.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Álfur það engan veginn í anda mann­réttinda­bar­áttu að nýta sér ótta minni­hluta­hóps til að níðast á öðrum. „Við megum ekki láta ótta taka yfir og vekja hatur gagn­vart öðru fólki þótt við eigum um sárt að binda á tíma­bili, heldur miklu frekar sýna sam­stöðu með öllum minni­hluta­hópum, taka saman höndum og sigrast á þessu hatri,“ segir hann.