Reykjavíkurborg stefnir á að byggja færanlegt húsnæði við þrjá leikskóla og starfrækja tvær leikskólarútur á ári til að geta boðið ný leikskólapláss á næsta skólaári.

Skúli Helgason, formaður í skóla- og frístundaráði, segir í samtali við Fréttablaðið að unnið sé að því að finna bestu staðsetningarnar fyrir einingarnar en niðurstaðan tekur mið af nýrri greinargerð starfshópsins „Brúum bilið á meðan við brúum bilið“ . Ekki verður boðið í aukapláss fyrr en að staðsetningarnar liggja fyrir og staðfesting hefur verið fengin frá birgja um að einingarnar berist til landsins fyrir haustið.

Á fundi borgarráðs fyrir um tveimur vikum lagði borgarstjóri til að borgarráð heimili leigu 100 til 110 eininga af færanlegu húsnæði til að geta boðið ný leikskólapláss á næsta skólaári. Einingarnar nýtast í um þrjár byggingar við leikskóla. Í tillögunni var lagt til að leigusamningar yrðu til þriggja ára.

Þá var einnig óskað eftir heimild borgarráðs við að hefja útboðsferli við tvær fullbúnar leikskólarútur. Í tillögu borgarstjóra kemur fram að leikskólarútur séu vel heppnað verkefni í nágrannalöndum okkar. Lagt er til að koma á fót tveimur rútum sem myndu ganga þar sem elstu börn á ákveðnum leikskólum gætu farið á græn svæði borgarinnar þar sem inniaðstaða eða útikennsluaðstaða er fyrir hendi.

Frumkostnaðarmat á færanlegu húsnæði með grundun, gerð leikskólalóðar og búnaði er um 250 milljónir króna og ársleiga á færanlegu húsnæði verði á bilinu 180 til 240 milljónir króna. Áætlaður kostnaður vegna tveggja fullbúinna leikskólarúta er um 120 milljónir króna