Í morgun var stað­fest að hlaup væri hafið úr Eystri-Skaft­ár­katli en búast má við því að vatnið komi undan jökli í fyrra­málið að sögn jarð­eðlis­fræðings hjá Al­manna­vörnum.

Í kjöl­farið myndi það taka um það bil tíu klukku­tíma að ná að þjóð­veginum en ó­mögu­legt er að segja hversu langan tíma það mun taka fyrir hlaupið að ná há­marki og síðan sjatna og gæti það tekið ein­hverja daga.

Gert er ráð fyrir að nú­verandi hlaup verði á­móta­stórt og síðast þegar hljóp úr katlinum árið 2018 en mögu­legt er að það geti dreift sér meira heldur en hlaupið árið 2018. Hættu­stigi al­manna­varna hefur nú verið lýst yfir vegna málsins en við­vörunar­stig hafði verið í gildi í nokkra daga eftir að það byrjaði að hlaupa úr Vestari katlinum.

Sand- og leirfok gæti valdið hættu vikum síðar

Björn Odds­son, jarð­eðlis­fræðingur hjá Al­manna­vörnum, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að í ljósi þess að Eystri ketillinn er stærri en sá Vestari hafi þurft meiri við­búnað og vöktun þar sem vatnið úr hlaupinu gæti flætt yfir vegi sem liggja næst ánni.

„Síðan getur verið tölu­verður sandur sem kemur með Skaft­ár­hlaupum, það leggst yfir tún og engi og getur síðan endað í sand- og leir­foki daga og jafn­vel vikur eftir Skaft­ár­hlaup, þannig það er ekki bara vatnið sjálft og gasmengunin sem að getur valdið hættu heldur geta eftir­málarnir verið ögn meiri,“ segir Björn.

Ferða­menn sem eiga leið um svæðið eru beðnir um að sýna að­gát og fylgjast vel með upp­lýsingum um stöðu mála en lög­reglan á Suður­landi mun stýra öllum að­gerðum í sam­starfi við Vega­gerðina ef það skyldi fara að flæða yfir vegi og það þyrfti að loka. Mjög há grunn­vatns­staða er á svæðinu þannig það má búast við ein­hverri dreifingu af flóð­vatni út fyrir bakka árinnar.

Að­spurður um hvort al­manna­varnir beini öðrum til­mælum til fólks fyrir utan að forðast að ferðast um svæðið segir Björn það helst vera hætta ef fólk er að fara of ná­lægt upp­tökunum þar sem getur verið brenni­steins­mengun.

„Það er sjaldan sem að fólk hefur komið sér í vand­ræði í Skaft­ár­hlaupum vegna gasmengunar en hún er til staðar þannig fólk þarf að fara var­lega, en á­hrifin eru fyrst og fremst fyrir bændur og á­bú­endur á svæðinu,“ segir Björn.