Þorsteinn Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir ekki mikla hættu á að gróðureldar á borð við þá sem nú geisa í Evrópu vegna yfirstandandi hitabylgju muni kvikna á Íslandi. Til þess sé of langt liðið af sumri og hlýja loftið á meginlandinu hafi ekki verið að skila sér til Íslands.

„Það er alltaf hætta á gróðureldum ef það er þurrt vor og þurrt sumar,“ sagði Þorsteinn. „Slökkviliðin og aðrir fylgjast mjög vel. Í sumarbústaðalöndum getur orðið mikið tjón. Í Skorradalnum er til dæmis bara ein leið inn og út úr dalnum. Ef það kemur skógareldur þar getur skapast hættuástand.“

Þorsteinn segir að á Íslandi sé gróðureldahættan mest í maí og júní. „Nú er orðið svo áliðið sumri. Gróðurinn er orðinn rakari. Á Íslandi er þetta spurning um hvort vorið og byrjun sumarsins séu þurr. Það er árstíðabundið og ekki endilega spurning um loftslagsbreytingar. En það er stórt vandamál ef þetta er að gerast ár eftir ár í Evrópu. Það hefur verið mikið um skógarelda á Spáni og Portúgal auk þess sem það lækkar ört í vatnsbólunum.“

Þorsteinn segir hugsanlegt að loftslagsbreytingar séu að auka hættuna á skæðum gróðureldum í Evrópu og Bandaríkjunum en segir það ekki vera mikið áhyggjuefni á Íslandi. „Við erum eyja. Það er meiri breytileiki í veðri og oft svalt loft yfir landinu sem sígur yfir. Við fáum oft ekki að finna fyrir þessu heita lofti. Þetta er spurning um árstíðirnar og hversu þurrt vorið er. Hitinn hér hefur ekki rímað við þessi hlýindi í Evrópu. Við erum bara ekki í þessu sama loftslagi og Evrópa og Bandaríkin. Við erum meira í heimskautaloftinu.“