Ferða­mönnum sem ferðast til Ís­lands heldur á­fram að fjölga en fjöldi smita hér á landi hefur ekki haft nein á­hrif á fjölda véla sem koma hingað. Það sem af er ágúst hafa í kringum 50 vélar lent dag­lega á Kefla­víkur­flug­velli og er gert ráð fyrir að ferða­mönnum muni á­fram fjölga í ágúst og septem­ber.

Vegna fjölda ferða­manna hefur mikið álag verið á Kefla­víkur­flug­velli, og ör­tröð jafn­vel myndast, þar sem nauð­syn­legt er að at­huga hvort allir sem ferðist þar í gegn séu með nauð­syn­leg gögn, til að mynda bólu­setningar­vott­orð og niður­stöður sýna­töku.

Í samtali við Fréttablaðið um helgina sagði Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, að við­búið væri að á stærstu á­lags­tímunum yrði mjög þétt á flug­vellinum í ágúst og septem­ber. Það myndi því aðeins reynast erfiðara að bregðast við stöðu mála á næstunni.

Vona að einfaldari gátlisti flýti fyrir

Að­spurður um hvað sé verið að gera til þess að bregðast við á­laginu sagði Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn á upp­lýsinga­fundi í dag að sam­ráðs­hópur hafi verið stofnaður til þess að fara yfir þau mál. Hópurinn fundaði síðast í dag og í kjöl­farið var á­kveðið að ein­falda gát­lista fyrir starfs­menn vallarins til að flýta fyrir.

„Það er svona það sem er verið að vinna í dag, þær leið­beiningar voru gefnar út í snemma í morgun þannig þær taka vonandi bara gildi í dag þannig að það flýti eitt­hvað fyrir þessu,“ sagði Víðir á fundinum en einnig eru Isavia að skoða leiðir til að auka öryggi og bæta flæðið.

Ekki ákjósanleg staða en getur komið upp

Fólk hefur þurft að bíða þétt saman í löngum röðum vegna stöðunnar og hafa nokkrir lýst yfir á­hyggjum um sótt­varnir á vellinum. Að sögn Víðis er um gríðar­lega á­skorun að ræða og tók Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir undir með Víði á fundinum.

„Þetta er ekki á­kjósan­legt að sjá þessa stöðu, þegar svona ör­tröð myndast í flug­höfninni,“ sagði Þór­ólfur en hann sagði mikil­vægt að fram­fylgja reglum sem nú eru á landa­mærunum hvað varðar vott­orð. „Við verðum að tryggja það að þau séu skoðuð og að fólk geti, og þurfi, að fram­vísa þessum vottunum þegar það fer um borð í vél er­lendis og líka þegar kemur hingað.“

Að sögn Þór­ólfs má ekki gleyma að það eru helstu sótt­varna­ráð­stafanirnar til að tryggja að fólk komi ekki með smit inn í landið. „En þetta er ekkert auð­velt, meðan við erum að fá svona marga far­þega og höfum ekki stærra hús­næði og meiri mann­afla til að sinna þessu þá getur þetta komið upp,“ sagði Þór­ólfur.