Bæjarráð Akureyrar samþykkti í síðustu viku að tvær álmur Lundarskóla yrðu endurnýjaðar. Í skýrslu umhverfis- og mannvirkjasviðs voru þrír möguleikar teknir til greina. Var fyrsti kosturinn valinn vegna þess að hann myndi taka skemmstan tíma, væri hagkvæmastur, en myndi jafnframt uppfylla þarfir nútíma skólastarfs.

Elsti hluti skólans er nærri hálfrar aldar gamall og við loftgæðamælingar fannst mygla í honum. Starfsfólk skólans hefur lengi kvartað undan heilsufarslegum óþægindum, lasleika og ólykt. Samkvæmt skýrslu Mannvits var talið nauðsynlegt að grípa til ráðstafana í tveimur álmum, en að hægt væri að koma burðarvirkinu í gott lag og lengja líftíma byggingarinnar.

Fulltrúar Sjálfstæðismanna greiddu gegn tillögunn

Fulltrúar Sjálfstæðismanna greiddu gegn tillögunni og vildu frekar rífa bygginguna og reisa nýjan skóla með áföstum leikskóla. Um gríðarlega stórt og mikið verkefni er að ræða, sem hleypur á milljörðum hvaða leið sem valin er. Telja þeir ekki hyggilegt að velja leið þar sem kostnaður sé, að þeirra sögn, 80 prósent af byggingu nýs skóla. Einnig að skólinn sé að hluta til í kjallara, sem stríðir gegn núverandi reglugerðum.

„Við erum á leið í óvissuferð fyrir verulega háar upphæðir,“ segir Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðismanna. „Mér finnst vera skammsýni í þessum aðgerðum því að steypan er orðin mjög gömul í húsinu og ný bygging myndi duga mun lengur.“

Í skýrslu umhverfis- og mannvirkjasviðs eru endurbæturnar metnar á allt að 3 milljarða, nýbygging að hluta myndi kosta allt að 4 milljarða og nýtt húsnæði frá grunni 4,5. Þá á eftir að reikna inn kostnað við bráðabirgðaaðgerðir, til að halda skólastarfi gangandi á framkvæmdatíma, sem hleypur á hundruðum milljóna króna.

Segir valið byggt á faglegum forsendum

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs, segir valið byggt á faglegum forsendum, eftir að hafa farið í gegnum frístunda-, skóla- og fræðsluyfirvöld. „Þetta var talið best, meðal annars með sem minnstu raski á skólastarfi í huga, því þarna eru 500 nemendur,“ segir hann. Hefur hann ekki áhyggjur af því að lagfæringarnar dugi aðeins til skamms tíma, eða að verðið standist ekki. „Við erum að gera svipaðar framkvæmdir í Glerárskóla, og reiknum með því að þetta verði eins og nýtt.“

Gunnar segist gera alvarlegar athugasemdir við hvernig kostunum sé stillt upp og að nýbyggingarkostirnir séu ekki greindir til fullnustu og efast um þá verðmiða sem settir eru á þá. „Ég fæ ekki betur séð en að hægt sé að finna hagkvæmni og samlegð í að byggja eina byggingu fyrir grunn- og leikskóla,“ segir hann. Þá hefur hann einnig áhyggjur af því að kostnaðurinn við þá leið sem að óbreyttu verður farin, fari úr böndunum. „Við þekkjum af reynslunni, til dæmis í Listasafninu, að áætlanir um endurbyggingu gamalla húsa standast ekki.“