Flug­maður í bók­legu at­vinnu­flug­manns­námi sem átti verk­lega hluta námsins eftir, reyndi að lenda flugvél á ísi­lögðu Þing­valla­vatni síðastliðinn mars, með slæmum af­leiðingum. Þetta kemur fram í bókun Rann­sóknar­nefndar sam­göngu­slysa (RNSA).

„Í lendingunni skammt frá Sand­ey [...] hlekktist flug­vélinni á. Á yfir­borði íssins var krapi og skemmdist nef­hjólið í lendingunni,“ segir í bókun RNSA.

Flug­maðurinn til­kynnti ekki flug­slysið til lög­reglu né RNSA heldur hringdi hann í annan aðila eftir að­stoð sem kom á vett­vanga á vél­sleða um þremur klukku­stundum síðar. Skáru þeir nef­hjóls­legginn í sundur þar sem hann var skemmdur og komu fyrir röri inni í hjóla­stells­leggnum og tengdu saman tvo skorna hluti nef­hjóls­leggsins. Því næst reyndi flug­maðurinn að koma flug­vélinni á loft á nýju.

Vitni fylgdist með úr sjónauka

Sam­kvæmt vitni sem fylgdist með úr sjón­auka féll nef­hjóls­leggurinn saman að nýju eftir um þrjá metra í flug­taks­bruninu og skemmdist þá loft­skrúfa flug­vélarinnar. Mennirnir reyndu síðan að færa flug­vélina með að­stoð vél­sleða en sam­kvæmt vitninu færðu þér vélina um tuttugu metra leið af vett­vangi áður en hætt var við þá að­gerð.

Flug­maðurinn hafði um 425.3 flug­tíma reynslu, þar af um 303.2 flug­tíma á þessa tegund og 113.6 flug­tíma síðustu 90 daga fyrir flug­slysið.

„Það er mat RNSA að að­stæður á Þing­valla­vatni hafi ekki verið á­kjósan­legar til lendingar. TF-ASK er skráð sem heima­smíðað loft­far, en reglu­gerð 216/1982 gildir um heima­smíði loft­fara,“ segir bókun RNSA.

Sam­kvæmt reglu­gerð um heima­smíði loft­fara, þá skal við­hald sem ekki er hægt að líkja við skoðun á heima­smíðuðu loft­fari (t.d. stærri við­gerðir) og ekki er fram­kvæmd af flug­véla­verk­stæði eða öðrum aðila sem loft­ferðar­eftir­litið hefur viður­kennt, fram­kvæmt á þann hátt sem reglu­gerð á­kveður um heima­smíðuð loft­för.

RNSA beinir þeim til­mælum til flug­manna að huga að til­kynningar­skyldu sinni til RNSA í til­felli al­var­legra flug­at­vika og flug­slysa. Enn fremur minnir RNSA á að ekki skal hrófla við vett­vangi flug­slysa og al­var­legra flug­at­vika, að undan­skildum björgunar­störfum, nema með leyfi RNSA. Rann­sóknar­nefnd sam­göngu­slysa lokaði málinu með bókun.