Landsvirkjun mun ekki byggja nýjar virkjanir til þess að mæta orkuþörf gagnaveranna, sem eru nýtt að langstærstum hluta til þess að grafa eftir rafmynt.

„Við finnum fyrir aukinni eftirspurn gagnavera,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, aðspurður um hvort pressa sé á að útvega meiri orku fyrir gagnaverin.

Verð rafmynta hefur rokið upp á undanförnum mánuðum sem valdið hefur því að sífellt fleiri sækjast eftir því að kaupa og grafa eftir rafmynt.

„Þó við höfum verið að selja orku til gagnavera hefur þetta aldrei haft áhrif á fjárfestingarákvarðanir okkar,“ segir hann.

Ástæðan sé sú að þetta er svo illfyrirsjáanlegur markaður. „Þegar við byggjum virkjanir förum við í langtímasamband með ábyrgðum við ákveðna viðskiptavini.“

Á sama tíma og Bitcoin og aðrar rafmyntir ruku upp í verði minnkaði eftirspurnin eftir afurðum eins og áli og kísil. En nú hefur orðið breyting. Hörður nefnir álverið Rio Tinto sem dæmi, sem samið var við í upphafi árs.

„Rio Tinto keyrðu niður afköstin á síðasta ári vegna minni eftirspurnar en hafa verið að snúa þessu við og eru að verða komnir í full afköst,“ segir hann.

„Það sama gildir um aðra viðskiptavini. Álverð, kísilverð og fleira hefur verið að hækka mikið.“ Sú raforka sem seld hefur verið til gagnaveranna var að hluta orka sem ekki hefur verið hægt að nýta til stóriðnaðar. Þegar þetta snýst við verður minna til skiptanna.

Hörður telur að gagnaverin eigi mikla framtíð fyrir sér og mikilvægt sé fyrir Ísland að fá stóru þekkingarfyrirtækin hingað. „Rafmyntagröfturinn styrkir þessa starfsemi við að koma undir sig fótunum og borga ákveðnar fjárfestingar,“ segir hann.

„En ég held að flestir geri sér grein fyrir að það sé mjög óvíst hvort gröfturinn verði með þessum hætti til framtíðar. Ég held að það sé mikilvægt að draga úr orkuþörfinni og veit að aðilar eru að leita leiða til þess að svo geti orðið.“