Nadia, sem er annálaður fagurkeri, lét gamlan draum rætast og menntaði sig í innanhússhönnun í Mílanó þaðan sem hún útskrifaðist frá hönnunarskólanum Istituto Europeo di Design fyrir tveimur árum. Aðalstarf hennar sem löggiltur fasteignasali rímar vel við áhugann á innanhússhönnun en hún býður seljendum sem öðrum upp á ráðgjöf þegar kemur að því að gera heimilið sem fallegast.


Sameinaði áhugamálin

Þegar kom að kaupum á hesthúsi í Víðidal gat Nadia sameinað áhugamálin tvö, hestamennsku og innanhússhönnun, en Nadia segist hafa farið að stunda hestamennsku 10 ára gömul.

„Þá eignaðist ég dásamlega vinkonu sem kynnti mig fyrir hestamennskunni og fór það svo að ég keypti mér minn eigin hest þegar ég var 15 ára. Ég fór líka nokkur sumur í sveit og það kynti enn frekar undir þessari bakteríu.

Ég gerði svo langt hlé á þessu þegar ég bjó erlendis og hafði sennilega ekki farið á hestbak í næstum 20 ár þegar ég byrjaði aftur, sem hafði þær afleiðingar að ég fór alveg á bólakaf aftur,“ segir hún og hlær. Nadia tók þetta alla leið og fór í nám í reiðmennsku við Bændaskólann á Hvanneyri. „Ég fékk svo að læra aðeins meira hjá vinkonu minni og hennar manni sem reka tamningastöð í Austur-Landeyjunum.“

Nadia kynntist hestamennskunni fyrst 10 ára gömul í gegnum vinkonu sína. Fréttablaðið/Valli

Veðursæld í Víðidalnum

Nadia og Gunnar keyptu húsið í Víðidalnum árið 2018 og fóru þau strax í að gera það upp.

„Við vorum áður með hesthús í Kópavoginum, en okkur finnst bæði meiri veðursæld og skemmtilegri reiðleiðir í Víðidalnum,“ segir Nadia en þau hjónin stunda hestamennskuna af miklum móð auk þess sem dætur Nadiu bætast við á sumrin.

„Við hentum öllu út, brutum niður vegginn inn í hlöðuna til að búa til meira pláss og færðum innganginn inn í húsið,“ segir Nadia en þegar húsið er fullt komast fyrir sjö hestar.

Eins og sjá má er hesthúsið einkar hlýlegt þar sem er pláss fyrir sjö hross. Fréttablaðið/Vignir Már Garðarsson

Nágrannar fylgdu í kjölfarið

Hesthúsið er einkar hlýlegt eins og sjá má, með snyrtilegri kaffistofu, þvottavél og þurrkara og segir Nadia mikla vitundarvakningu hafa orðið hjá hestamönnum þegar kemur að því að hafa líka huggulegt í hesthúsinu sínu.

„Það er gaman að sjá hvað margir nágrannar okkar hafa fylgt í kjölfarið að gera hesthúsin hlýlegri. Það má alveg segja að það var mikill gestagangur hjá okkur fyrst eftir að við tókum húsið í gegn. Kunnugir og ókunnugir voru að kíkja í gættina hjá okkur og spyrja um lausnir og fá hugmyndir.

Fyrir nokkrum árum kom ný reglugerð sem lagði línurnar með stærðina á hverri stíu og í kjölfarið var mikið af fólki sem fór í það að endurnýja húsin svo að plássið nýtist betur.“

„Það er gaman að sjá hvað margir nágrannar okkar hafa fylgt í kjölfarið að gera hesthúsin hlýlegri."

Nadia segir þau hjón sópa eftir hverja gjöf til að halda húsinu snyrtilegu. Fréttablaðið/Vignir Már Garðarsson

Sópað eftir hverja gjöf

Aðspurð segir Nadia þau hjón samtaka um að halda hesthúsinu þrifalegu.

„Það er sópað eftir hverja gjöf og kaffistofan þrifin reglulega. Versti óvinurinn er rykið úr heyinu og undirburðinum svo maður þarf alveg að vera duglegur stundum á tuskunni.“

Þegar húsið er fullt af hestum verja þau að meðaltali um tveimur klukkustundum í húsinu dag hvern.

„Ef það er engin pressa að drífa sig heim þá borðum við oft kvöldmatinn í hesthúsinu og erum að dóla okkur fram eftir.“

Kaffistofan er einkar notaleg en Nadia lét gera borðið úr gömlu parketi til að hafa það í anda hússins. Fréttablaðið/Vignir Már Garðarsson

Í hesthúsinu er að finna bæði þvottavél og þurrkara og segir Nadia þau hafa þurft að velja á milli þess eða sturtu vegna plássleysis en helst hafi þau viljað hafa hvort tveggja.

„En við ákváðum að þvottavél fyrir ábreiðurnar væri í forgangi. Oft þegar það er kalt og blautt og hrossin hafa svitnað mikið við þjálfun er þeim pakkað inn í ábreiðu eftir að þau hafa fengið að velta sér í gerðinu. Þau liggja líka mikið þannig að þær eru fljótar að verða frekar skítugar og þá er gott að hafa þvottavél og þurrkara á staðnum.“

Valið stóð á milli sturtu og þvottavélar og þurrkara og völdu þau hið síðara til að geta þvegið ábreiður hrossanna. Fréttablaðið/Vignir Már Garðarsson
Hér var öllu skipt út og bætt við glugga inn í hesthúsið til að fá inn meiri birtu. Fréttablaðið/Vignir Már Garðarsson
Öllum útbúnaði er snyrtilega komið fyrir. Fréttablaðið/Vignir Már Garðarsson
Í húsinu eru fjögurra og átta fermetra stíur fyrir sjö hross. Fréttablaðið/Vignir Már Garðarsson
Grái liturinn er allsráðandi og gefur húsinu fallegan heildarsvip. Fréttablaðið/Vignir Már Garðarsson

Gaman að vinna með minni rými

Eins og fyrr segir hefur Nadia tekið að sér að veita einstaklingum ráðgjöf þegar kemur að innanhússhönnun en hún segist víða sækja sér innblástur í þeim efnum.

„Ég myndi segja að hann kæmi alls staðar frá, hvort sem ég er að fletta tímaritum, horfa á bíómyndir eða vafra á netinu.“

Hún bendir á að hvert verkefni sé einstakt og mikilvægt að kynnast aðeins fólkinu sem hún vinni fyrir. Hvaða áherslur séu á heimili fólks og hvernig lífsstíll þess er.

„Hvað finnst þeim fallegt? Og svo er það mitt hlutverk að hjálpa viðskiptavininum að skapa fallega heildarmynd á heimilinu. Oft ægir saman mörgum stílum og þá þarf að finna lausnir til að fá fallega heildarmynd á heimilið.

Ekkert verkefni er of lítið eða stórt og mér finnst sérstaklega gaman að vinna við rýmishönnun þar sem ekki eru of margir fermetrar að vinna með og finna þarf sniðugar lausnir til að skapa fallega heildarmynd.“