Jón Karl Ólafsson var í kvöld endurkjörin formaður Varðar -fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík á aðalfundi fulltrúaráðsins. Í tilkynningu frá flokknum segir að auk hans hafi þau Elín Engilbertsdóttir, Einar Sigurðsson, Einar Hjálmar Jónsson, Matthildur Skúladóttir, Rúna Malmquist, Sigurður Helgi Birgisson og Þórarinn Stefánsson verið kjörin í stjórn Varðar.
Fulltrúaráðið tekur ákvörðun um hvaða aðferð verður notuð um röðun á lista fyrir alþingiskosningar. Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að þótt ekki liggi fyrir hvernig raðað verði á lista í Reykjavík sé nánast óhugsandi að uppstilling verði fyrir valinu og ráðherrunum tveimur stillt upp í oddvitasætum hvorum í sínu kjördæminu. Mikil prófkjörshefð er í flokknum og prófkjörsreglur nokkuð vel mótaðar.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra hefur haft mikil ítök í innra starfi flokksins í Reykjavík undanfarinn áratug og stjórn Varðar verið skipuð fólki sem verið hefur honum hliðhollt. Af þeim frambjóðendum sem nú voru í kjöri er ljóst að stuðningsmenn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur hafa viljað freista þess að auka sín áhrif í flokksstarfinu í Reykjavík.
Áslaug og Guðlaugur munu keppast um forystu flokksins í Reykjavík í aðdraganda alþingiskosninga en það er fulltrúaráðið sem tekur ákvörðun um hvernig valið verður á lista flokksins og hvenær valið fer fram.
Stuðningsfólk Áslaugar virðist hins vegar ekki hafa átt upp á pallborðið á nýloknum aðalfundi Varðar. Þannig náðu hvorki Ólöf Skaftadóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, né Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, kjöri í stjórnina en þær eru báðar hliðhollar Áslaugu Örnu.