Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, var ekki talin hafa brotið siðareglur alþingismanna þegar hún uppnefndi Freyju Haraldsdóttur, fyrrverandi varaþingmann Bjartrar framtíðar, „Freyju eyju“. Formaður Þroskahjálpar, Bryndís Snæbjörnsdóttir, segist undrandi yfir niðurstöðunni og segir ummælin skýrt dæmi um hatursorðræðu.

Anna nýtur vafans

Í bréfi Önnu Kolbrúnar til forsætisnefndar sem nefndinni barst 3. maí bendir Anna á að uppnefni séu oft viðhöfð um stjórnmálamenn og að uppnefni Freyju hafi ekki falið í sér illmælgi. Í áliti siðanefndar sem mbl.is birti í dag kemur fram að nefndinni virðist uppnefnið vísa til líkamlegs ástands Freyju Haraldsdóttur, sem fæddist með sjaldgæfan beinasjúkdóm.

„Ummæli af þessum toga geta þannig skaðað ímynd Alþingis,“ segir í áliti siðanefndar. „Það verður þó ekki fram hjá því litið að erfitt er að slá þessu á föstu,“ segir þá og því lætur siðanefnd Önnu Kolbrúnu njóta vafans og ummæli hennar ekki sögð brotleg.

Ekkert fjallað um selahljóðið

Bryndís, formaður Þroskahjálpar, furðar sig á niðurstöðum nefndarinnar. „Ég er auðvitað bara undrandi á þessu vegna þess að ég tel að það sé engum vafa undirorpið að þessi ummæli sköðuðu að sjálfsögðu virðingu Alþingis,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið. „Eins og ég talaði um á sínum tíma þá er þetta bara hatursorðræða í sinni skýrustu mynd að mínu mati.“

„Eins og ég talaði um á sínum tíma þá er þetta bara hatursorðræða í sinni skýrustu mynd að mínu mati.“

Hún segir Önnu Kolbrúnu þá mega eiga það að hún hafi hringt í Freyju og reynt að hljóta fyrirgefningu hennar. „Hún var svo sem kannski ærleg í viðbrögðum sínum miðað við marga aðra,“ segir Bryndís. Hún furðar sig þá einnig á því að hvergi í áliti nefndarinnar sé minnst á selahljóðið sem einhver Klaustursmanna gerði í umræðum þeirra um Freyju. „Þetta hljóð situr í fólki. Og það veit svo sem enginn frá hverju þeirra það kom en það er kannski nóg til að segja að þau eru öll jafn sek undir því,“ útskýrir hún.

„Og það sem er líka alvarlegt er að allir sitja undir þessu og enginn bregst við. Það er þessi þöggun,“ heldur hún áfram. Að hennar mati ættu þannig allir þingmennirnir sem sátu á Klausturbar umrætt kvöld að vera dæmdir brotlegir. „Mér finnst þessar árásir á fatlað fólk, á konur og á minnihlutahópa í þessum einkasamræðum þeirra á opinberum vettvangi vera ámælisverðar í heild sinni og að þær hafi skaðað virðingu Alþingis. Það er ekkert vafamál.“

Ekki bara Freyja sem tók þetta nærri sér

„Það var líka ekki bara Freyja sem að tók þetta nærri sér. Það var fatlað fólk almennt,“ bendir hún þá á. „Það voru mjög margir sem höfðu samband við mig eftir þetta og tóku þetta mjög nærri sér vegna þess að þetta er eins og árás á fatlaða. Hvernig á fatlað fólk að treysta sér til að bjóða sig fram til starfa á Alþingi ef það má búast við svona frá kollegum sínum?“ spyr hún sig þá.

Hún kveðst þannig afar svekkt yfir að nefndin hafi skautað fram hjá þessu í áliti sínu en veltir í leiðinni fyrir sér hverju slíku áliti er ætlað að skila þegar allir aðilar málsins hafa gefið út að þeir muni ekki láta álitið hafa áhrif á sig. „Þetta mun ekki breyta neinu um setu þeirra á Alþingi eða neitt þess háttar. Þannig maður spyr sig hvað maður á að vera að eltast við svona,“ segir hún að lokum.