Engin sjúkragögn eða upplýsingar eru til um Juliu Wendell, konuna sem telur sig vera Madeleine McCann sem hvarf frá foreldrum sínum árið 2007, fyrstu fimm ár ævi hennar.

Irish Mirror hefur þetta eftir einkaspæjaranum Dr. Fia Johansson sem hefur rannsakað málið undanfarnar vikur. Hún segir að svo virðist sem Julia „hafi ekki verið til“ þessi fyrstu fimm ár.

„Þetta er svo skrýtið því allt í sjúkraskrá Juliu byrjar frá fimm ára aldri,“ segir Johansson. „Þannig það vantar allt milli núll til fimm ára aldurs. Allt er horfið!“

Hin pólska Julia Wendell, sem einnig gengur undir neafninu Julia Faustyna, vakti heimsathygli fyrr á þessu ári þegar hún greindi frá því að hún teldi sig vera stúlkuna sem hvarf einungis fjögurra ára gömul.

Henni sagðist gruna að hún væri McCann vegna ummæla milli foreldra sinna um þeir hefðu tekið hana. Og þá vísaði hún jafnframt til þess að hún ætti fáar æskuminningar og líkinda sín og Madeleine.

New York Post greindi síðan frá því í dag að Julia hefði undirgengist erfðapróf til þess að greina á um hvort hún væri Madeleine McCann. Áður hafði verið opinberað að foreldrar bresku stúlkunnar væru tilbúnir að gangast undir slíka rannsókn.