Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir ekkert til í ásökunum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra.
„Það voru ekki notuð nein gögn úr þessari kjörskrá og ég vissi ekki einu sinni af þessum aðgangi bróður míns,“ sagði Áslaug að loknum ríkisstjórnarfundi nú í morgun.
Bróðir Áslaugar hefur hjálpað henni í framboðinu en aðallega við tæknimál og samfélagsmiðla að hennar sögn.
Guðlaugur lagði fram kæru á hendur Áslaugu fyrir að brjóta reglur í prófkjöri vegna aðgangs bróður hennar að flokksskrá Sjálfstæðisflokksins. Yfirkjörstjórn taldi athugasemdirnar ekki eiga við rök að styðjast og að ekki hafi verið brotið gegn prófkjörsreglum.
„Niðurstaða yfirkjörstjórnar var mjög skýr, það var ekkert gert af því sem við vorum sökuð um,“ segir Áslaug.
Hún segir prófkjörið hafa verið skemmtilegt hingað til og vonar að það verði það áfram. „Ég er bara að gefa kost á mér og gefa fólki val, við styðjum valfrelsi og fólk hefur val í Sjálfstæðisflokknum.“