Rannsóknir á lyfinu Ivermectin sem bent hafa á mögulega gagnsemi fyrir sjúklinga með Covid-19 hafa ekki getað sýnt fram á skýrt orsakasamhengi.

Í nýrri grein vísindavefnum sem skrifuð er af þeim Jóni Magnúsi Jóhannessyni, deildarlækni á Landspítalanum, og Magnúsi Karli Magnússyni, prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, reyna þeir að svara því hvort nýjustu rannsóknir bendi til þess að Ivermectin gagnist sem meðferð við COVID-19.

Þar segir að vandaðasta rannsóknin til þessa, sem unnin var af Cochrane-samtökunum, á virkni Ivermectin gegn Covid-19 sýni engin merki um að lyfið minnki dánartíðni, bæti einkenni eða komi í veg fyrir að einkenni versni.

Þeir Jón Magnús og Magnús Karl segja að að flestar rannsóknir á virkni lyfsins við Covid hafi hvorki verið ritrýndar né birtar formlega. Þá hafi ein stærsta rannsóknin nýlega verið dregin til baka vegna gruns um fölsun og ritstuld.

Ivermectin hefur ekki fengið markaðsleyfi hér á landi. Þónokkur hópur hefur haldið því fram að lyfið virki vel gegn Covid-19 og komi jafnvel í veg fyrir þörf á bólusetningum. Einn heimilislæknir hefur verið kærður til lögreglu fyrir að dreifa lyfinu.

Greininni fylgja eftirfarandi punktar:

  • Engin merki um að ivermectin minnki eða auki dánartíðni á degi 28 frá slembiröðun.
  • Engin merki um að ivermectin komi í veg fyrir versnun einkenna.
  • Engin merki um að ivermectin bæti einkenni.
  • Almennt er ekki hægt að áætla um gagnsemi ivermectin í að koma í veg fyrir COVID-19.
  • Ekki hægt að áætla um gagnsemi í þeim sem eru alvarlega veikir með COVID-19.