Hitinn gæti farið upp í fjórtán eða fimmtán gráður á Norðurlandi í dag, síðasta dag nóvembermánaðar. Þetta segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hann segir að mánuðurinn hafi verið sá hlýjasti síðan mælingar hófust.

Þrátt fyrir þennan mikla hita verður ekki tilefni til að fara í sólbað, segir Þorsteinn hlæjandi spurður út í það, en að hans sögn verður strekkingsvindur á Norðurlandi. Þó ætti að vera nokkuð þurrt þar en væta annars staðar á landinu.

Á höfuðborgarsvæðinu gæti hitinn farið upp í tíu stig. Í gær var hitinn um fimm til sex stig í Reykjavík og mun fara hækkandi að sögn Þorsteins.

Þetta verða þó síðustu hlýindin í bili. Á fimmtudag og föstudag mun kólna og verður laugardagurinn ansi kaldur.

Þorsteinn sér ekki fram á að það fari að snjóa fyrr en kannski seint í næstu viku, þá líklegast á Norðurlandi.