Enginn greindist með COVID-19 innanlands í gær. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á Covid.is

Fimm farþegar greindust á landamærum en beðið er eftir niðurstöðu mótefnamælinga um hvort smitin eru virk eða gömul.

716 sýni voru tekin innanlands í gær og 560 á landamærum, svipað og í fyrradag þegar fjórir greindust innanlands.

Alls eru nú 89 manns með virkt smit og í einangrun en 222 eru í sóttkví. 733 eru í skimunarsóttkví.

Það fjölgar á sjúkrahúsi en 19 eru nú inniliggjandi á covid göngudeild Landspítalans, samanborið við 18 í gær. Enginn er á gjörgæslu.

Bólusetningu er nú lokið hjá 4.546 einstaklingum og er hafin hjá 3.703 til viðbótar.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að þó vel gengi innanlands þá stæði ekki til að létta á gildandi samkomutakmörkunum fyrr en þær verða endurskoðaðar þann 17. febrúar næstkomandi.

Fréttin hefur verið uppfærð.