Engin smit hafa greinst í slembi­úr­taki Ís­lenskrar erfða­greiningar. „Það eru mikil gleði­tíðindi,“ segir Kári Stefáns­son, for­stjóri Ís­lenskrar erfða­greiningar, um skimanirnar. Að­spurður segist hann ekki búast við því að slembi­ski­mun verði haldið á­fram mikið lengur.

„Þó þetta sé víða í sam­fé­laginu, þá skulum við segja að þetta sé ekki með mikla og jafna dreifingu,“ segir Kári. Faraldurinn nú sé bundinn við hóp­smit, en það sé raunar alltaf þannig.

„Það er eitt af því sem menn gera sér ekki grein fyrir að þetta eru bara ein­staklingar sem smita hóp og síðan fer þetta í veldis­vöxt þegar hóparnir fara að bráðna saman.“

Frumvarpið einhverskonar málamiðlunartillaga

Kári fór mikinn síðast­liðinn mið­viku­dag og sagði ríkis­stjórnina hrasa á loka­metrunum með frum­varpi sínu um sótt­varnir á landa­mærunum. Meðal breytinga sem gerðar voru á frum­varpinu í vel­ferðar­nefnd var að­koma sótt­varna­læknis við mat á á­hættu­svæðum. Að­spurður að því hvort hann sé sáttari nú við frum­varpið, segist Kári vera það.

„Jú jú. Ég gagn­rýndi aðal­lega það að frum­varpið var sett saman þannig að það var settur lítill kassi utan um sótt­varna­lækni. Mér fannst frum­varpið klaufa­lega sett saman en ég veit að það var sett saman af góðum vilja,“ segir Kári.

„Ég er hræddur um að frum­varpið eins og það var lagt fram hafi verið ein­hvers­konar mála­miðlunar­til­laga. Ég hef nokkuð góðar heimildir fyrir því, þannig mér fannst það asna­legt og mér fannst ég verða að leggja mitt af mörkum til um­ræðunnar til að gera þeim sem voru gagn­rýnir á þetta auð­veldara um vik þetta kvöld og þessa nótt og ég er á­nægður með hvað kom út úr því.“

Næst segir Kári að þrátt fyrir það furði hann sig á því að enn hafi ekki verið sam­þykkt al­menni­leg sótt­varnar­lög til fram­búðar. „Að vísu þá er ég enn dá­lítið hissa á því að eftir fjór­tán mánuði af far­aldri í landinu þá hafi þingið ekki treyst sér til að setja lög sem myndu gilda lengur heldur en í nokkra mánuði. Ég veit eigin­lega ekki hvað er að þessu þingi.“

Hvað heldurðu að þú þurfir að tala um þetta oft svo að þetta gerist?

„Ég veit það ekki. Þegar ég las um það að þeir hefðu setið alveg til fimm um morguninn, linnu­laust, stóðst ég ekki freistinguna og setti saman eftir­farandi vísu:

Þó þeir tali heilan helling,
heyrist sjaldan glitta í vit,
því gáfna þingsins gengis­felling,
gerir okkur flesta bit.“