Ekkert Covid-19 smit greindist innanlands síðastliðinn sólarhring, samkvæmt upplýsingum á covid.is. Það þýðir að aðeins tvö smit hafa greinst hér á landi síðastliðna ellefu daga.
Nú eru alls 17 einstaklingar í einangrun með virkt smit og er því um að ræða átta færri en í gær þegar 25 voru í einangrun. 24 einstaklingar eru í sóttkví og 882 í skimunarsóttkví.
Enginn farþegi reyndist vera með veiruna eftir landamæraskimun í gær og greindist því ekki eitt einasta Covid-19 smit á landinu í gær.
Tilslakanir væntanlegar
Ríkisstjórnin fundar um tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis um tilslakanir á samkomubanni í dag. Þórólfur greindi frá því á upplýsingafundi almannavarna í gær að tilslakanir taki að öllum líkindum gildi um miðja viku.
Annað minnisblað sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra fjallar um aðgerðir innanlands og hitt fjallar um samkomutakmarkanir í skólum en reglugerðin sem gildir um skólana rennur út 1. mars. Þórólfur sagði að tilslakanir væru byggðar á þeim skilningi að fólk væri enn að nota grímuna og átti ekki von á því að gríman yrði felld alveg strax.