„Hvenær eru menn formlega og hvenær eru menn óformlega að tala saman? Ég veit það ekki,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að loknum fundi með Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna, og Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.
Katrín fundaði með Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, í morgun og gerði honum grein fyrir stöðunni. Hvorki Bjarni né Katrín gátu svarað því hvort um væri að ræða formlegar viðræður en Bjarni sagði að viðræðurnar, hversu formlegar eða óformlegar sem þær eru, myndu halda áfram eftir helgi.
„Við erum enn að draga upp þessar breiðu línur og núna ætla ég að fara aðeins að ræða stöðuna við þingflokkinn. Þetta er allt að mjakast í rétta átt finnst mér. Engin stórkostleg vandamál, við þekkjumst auðvitað vel og allt það, en okkur líður þannig að við þurfum að halda áfram aðeins að tala saman.“
Aðspurður um hvort að þau hafi rætt það að stokka upp ráðuneytum, fjölga þeim eða skipta upp sagðist Bjarni það hafa verið lauslega rætt. Hann sagðist ekki vera neinn hnút í maganum fyrir viðræðunum en ítrekaði mikilvægi þess að vanda vel til verks.
„Þetta er auðvitað stórmál að horfa til fjögurra ára og draga upp framtíðarsýn fyrir land og þjóð. Það er ekki eitthvað sem maður kastar til hendinni með. Við viljum læra af samstarfinu okkar og gera það heiðarlega upp, hvernig var að starfa saman í fjögur ár og hvaða mál komu upp á sem við viljum ekki lenda aftur í. En við erum líka mjög mikið að horfa til framtíðar, spennt fyrir framtíðinni og viljum láta reyna á það hvort við sjáum hana með sama hætti. Það tekur smá tíma að draga öll mál upp á yfirboðið og ræða þau. Það er sú vinna sem við stöndum í núna,“ segir Bjarni.

Ætlar að halda upp á afmæli dóttur sinnar
Leiðtogar flokkanna munu ráða ráðum sínum sitt í hvoru lagi fram yfir helgi. Aðspurður um hvað myndi gerast um helgina gaf Bjarni ekki mikið upp en sagðist þó ætla að reyna að slaka á.
„Ég ætla að halda upp á afmæli dóttur minnar um helgina og aðeins að reyna að slaka á. Við erum búin að vera í rosalega löngum spretti, ég held við þurfum öll aðeins að standa upp og teygja úr okkur og draga að okkur ferskt haustloftið og koma svo fersk aftur í þetta á mánudaginn.“
Hvernig er andinn í þingflokknum?
„Hann er ágætur. Við erum bara öll mjög spennt fyrir því sem er fram undan og viljum vanda okkur. Ég held að við séum kannski fyrst og fremst að vanda hvert skref sem verður stigið núna. Að við séum búin að sjá fyrir það sem við viljum gera og viljum ræða við mögulega samstarfsflokka um okkar hugðarefni og okkar áherslu og láta á það reyna hverjum við getum hrint í framkvæmd.“
Möguleg uppstokkun á ráðherraembættum
Bjarni sagði ekkert vera ákveðið með ráðherraembætti og aðeins væru um að ræða lauslegar þreifingar á þessu stigi. Hann gat ekki staðfest hvort Sjálfstæðisflokkurinn myndi halda þeim ráðuneytum sem þeir hafa verið með undanfarin fjögur ár; fjármálaráðuneyti, dómsmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
„Við myndum í öllu falli alltaf horfa þannig á það að við þyrftum að halda sama ráðuneytafjölda svona að öllu öðru óbreyttu. En það er ekkert skilyrði af okkar hálfu að allir sé áfram í sömu stólum. Það getur einmitt verið ástæða til þess að hreyfa við hlutum og kannski hleypa nýju lífi í mál með því að gera breytingar,“ sagði hann.
Með þá kannski yngra fólki inn?
Ég er ekkert endilega að tala um fólk, ég er að tala um skipulagið í stjórnarráðinu og hvernig við röðum verkefnum inn í ráðuneyti og hvort það geti ekki verið ágætt bara fyrir málaflokka að gera breytingar reglulega,“ segir Bjarni.