Skortur er á verkjalyfinu Pakódín Forte í öllum apótekum landsins og verður það ekki væntanlegt fyrr en eftir tvær vikur.

„Tímabundinn skortur getur átt sér margvíslegar skýringar. Skortur á Parkódín Forte er ekki til kominn vegna COVID-19. Undanþágulyfið Co-Dafalgan 500/30 mg leysir Parkódín Forte af hólmi meðan tímabundinn skortur varir,“ segir í svari Lyfjastofnunar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Lyfjastofnun segir að skortur lyfja núna sé ekki meiri en gengur og gerist. Tímabundinn lyfjaskortur sé vel þekkt fyrirbæri, bæði hérlendis sem og ytra. Lyfjastofnun er með sérstaka síðu um lyfjaskort þar sem stærstu skortsmálin hverju sinni eru útskýrð.

Víðtækar aðgerðir til að tryggja lyfjaöryggi

Kórónaveirufaraldurinn hefur ekki haft áhrif á lyfjaskort hér á landi að sögn Lyfjastofnunar þar sem stofnunin fór í víðtækar aðgerðir í janúar til að koma í veg fyrir það.

„Þær fólust meðal annars í því að greina birgðastöðu lyfja í landinu, og þar skipti máli mikið og náið samstarf við lyfjafyrirtæki, innflutningsaðila og dreifingarfyrirtæki. Einnig þurfti að tryggja og treysta allar flutningsleiðir lyfja til landsins með hliðsjón af ferðatakmörkunum víðs vegar.“

Lyfjastofnun segir að samstarf evrópskra lyfjastofnana undir hatti Lyfjastofnunar Evrópu hafi verið eflst í tengslum við COVID-19. Sérfræðihópur EMA hefur átt reglubundna símafundi til að fylgjast með framvindu mála. Norrænt samstarf hefur verið sérstaklega þétt og náið en stærsti hluti lyfja koma hingað til lands frá Norðurlöndum.

Íslendingar hömstruðu lyf í byrjun faraldursins

Aðspurð hvort aukning hafi orðið á sölu ákveðinna lyfja upp á síðkastið segir Lyfjastofnun að fólk hafi hamstrað lyf til að byrja með.

„Framan af COVID-19 faraldrinum var tilhneiging til hamsturs lyfja og því þurfti í nokkrum tilvikum að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana svo ekki kæmi til lyfjaskorts hérlendis vegna hamsturs. En rétt eins og faraldurinn hefur hamstur lyfja gengið til baka.“