„Ekkert okkar er ó­hult fyrr en við erum öll ó­hult,“ segir Frederik Kristen­sen, að­stoðar­for­stjóri CEPI, í við­tali við Frétta­blaðið. Þetta er megin­á­hersla CO­VAX, sam­starfs­verk­efnis Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar (WHO), CEPI og Gavi, sem í grunninn snýst um að tryggja bólu­efni fyrir alla.

„Enginn er að fara að ákveða fyrir hönd Íslands hvernig bóluefninu verður útdeilt.“

Ís­land er meðal 80 þjóða sem styðja við verk­efnið en ís­lensk stjórn­völd hafa lofað að leggja fram hálfan milljarð króna í fjár­fram­lagi til CO­VAX-verk­efnisins. Þá fara 250 milljónir beint til CEPI, sem sam­svarar 1,9 milljónum dala.

„CO­VAX er braut­ryðjandi verk­efni og mun hafa á­hrif á hvernig við tökumst á við næsta heims­far­aldur,“ segir Frederik. Vegna smit­hættunnar í kóróna­veirufar­aldrinum sé það í hag allra þjóða að vinna saman, í stað þess að ein­blína einungis á eigið land.

Háskólinn í Queensland í Ástralíu er ein þeirra stofnana sem vinna að nýju bóluefni.
Mynd: University of Queensland

Pólitísk átök við Bandaríkin

Mis­erfitt hefur verið að fá alla til að taka þátt, en WHO hefur dregist inn í pólitísk átök eftir að Donald Trump Banda­ríkja­for­seti hótaði að stöðva varan­lega allar fjár­veitingar til stofnunarinnar. Út­ganga Banda­ríkjanna á að taka gildi þann 6. júlí árið 2021 og gæti því ný ríkis­stjórn snúið á­kvörðun Donalds Trump við. Fjár­magn frá Banda­ríkjunum gæti gert gæfu­muninn á loka­sprettinum.

„Ég myndi segja að það væri í hag Banda­ríkjanna að taka þátt í CO­VAX-verk­efninu. Bæði eykur það líkur á að þau fái að­gang að bólu­efni og gefur þeim færi á að ná stjórn á far­aldrinum alls staðar. Þannig geta þau snúið efna­hags­kerfi sínu aftur á rétta braut. Sama hver er við stjórn­völinn þá myndi ég fagna að­komu Banda­ríkjanna,“ segir Frederik.

„Það er á­kveðin til­hneiging meðal þjóðar­leið­toga í svona að­stæðum að leggja á­herslu á frum­skyldu sína, sem er að hugsa um sitt fólk og sína kjós­endur,“ segir hann og á­réttar að málið sé ekki svo ein­falt. Alltaf sé hætta á að veiran komi aftur inn í landið, sé ekki búið að upp­ræta hana í öllum löndum. Einnig sé þetta í hag efna­hags­lífsins; tann­hjól hag­kerfisins geta ekki farið að snúast af al­vöru fyrr en búið er að stöðva far­aldurinn.

Rannsóknir Oxford lofi góðu

„Þjóðirnar verða að taka þátt og fjármagna verkefnið til þess að eiga rétt á bóluefni.“

Fyrsti hluti verk­efnisins er að þróa bólu­efni. CEPI styður við og fjár­magnar rann­sóknir við níu stofnanir og há­skóla í þróun bólu­efna og eru sjö af þeim nú þegar í klínískum prófunum. Að­spurður segir Frederik of snemmt að segja til um hvaða bólu­efni muni standa uppi sem sigur­vegari, en að rann­sókna­niður­stöður hjá há­skólanum í Ox­ford lofi góðu.

„Þróun bólu­efna er á­kveðin á­hættu­fjár­festing. Þó að efni sé á þriðja stigi klínískrar prófunar er enn mikil hætta á að það beri engan árangur,“ segir hann.

Því sé nauð­syn­legt að fá inn meira fjár­magn til að gefa vísinda­sam­fé­laginu rými til að mis­takast og prófa aftur. CEPI þarf að tryggja 2,1 milljarð dala í rann­sóknir og þróun á bólu­efni og hefur hingað til safnað 1,4 milljörðum.

COVAX er samstarfsverkefni milli CEPI, Alþjóðheilbrigðisstofnunarinar (WHO) og bólu­setn­ing­ar­banda­lags­ins Gavi sem hefur það að markmiði að hraða þróun bóluefna gegn COVID-19 og að tryggja aðgang allra að bóluefni.

Heilbrigðisstarfsfólk í forgangi

Þegar bólu­efni fyrir CO­VID-19 er til­búið verða næstu skref fjölda­fram­leiðsla og dreifing. Þau lönd sem taka þátt í verk­efninu munu fá bólu­efni fyrir fimmtung þjóðarinnar til að byrja með.

En hverjir verða í for­gangi?

„Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin hefur ráð­lagt þjóðum að setja heil­brigðis­starfs­fólk í for­gang, á­samt þeim sem eru í á­hættu­hópi. En þegar allt kemur til alls þarf hvert og eitt land að taka þessa á­kvörðun. Enginn er að fara að á­kveða fyrir hönd Ís­lands hvernig bólu­efninu verður út­deilt. Ís­lenska ríkis­stjórnin þarf að taka þessa á­kvörðun, en al­mennt fara flestar þjóðir eftir ráð­leggingum Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunarinnar,“ segir Frederik.

CEPI (Coalition for Epidemic Preparedness Innovations) var stofnað í Davos í Sviss árið 2017 af ríkisstjórnum Noregs og Indlands, góðgerðarfélagi Bill og Melindu Gates, góðgerðarsjóðnum The Wellcome Trust og Alþjóðaefnahagsráðinu (e. World Economic Forum)
Fréttablaðið/Getty images

Hluti af CO­VAX-verk­efninu er að tryggja að þróunar­lönd fái bólu­efni og að koma í veg fyrir snar­hækkun verðs á bólu­efni á upp­boðs­markaði milli þjóða. Bólu­setninga­banda­lagið Gavi, sam­starfs­aðili CEPI og WHO í CO­VAX-verk­efninu, hefur sam­þykkt að veita 92 lág­tekju­löndum að­stoð og tryggja þeim að­gang að bólu­efni.

En hvað með þær þjóðir sem neita að taka þátt í verk­efninu? Fá þær líka ykkar bólu­efni?

„Ein­falda svarið er nei. Þannig getur það ekki virkað. Þjóðirnar verða að taka þátt og fjár­magna verk­efnið til þess að eiga rétt á bólu­efni. Það er bara ekki hægt að fljóta með, neita að taka þátt og njóta svo á­góðans. Það væri ó­sann­gjarnt gagn­vart öðrum þjóðum. Við þurfum öll að standa saman.“

Hér fyrir neðan má sjá við­tal Frétta­blaðsins við Frederik Kristen­sen.