Ekkert nýtt kórónaveirusmit greindist síðasta sólarhringinn hér á landi og eru virk smit enn þrjú talsins.

Áfram fjölgar þó einstaklingum í sóttkví og eru þeir nú 901, 73 fleiri en greint var frá í gær þegar talan jókst um 101.

Alls hafa 20.178 manns lokið sóttkví frá því að faraldurinn braust hér út og 1.790 náð bata eftir að hafa greinst með kórónaveiruna.

Alls voru 597 sýni greind síðasta sólarhringinn, þar af 464 hjá Íslenskri erfðagreiningu og 133 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.

Betur verður farið yfir stöðuna á upplýsingafundi almannavarna á morgun en fyrirhugað er að síðasti reglubundni fundurinn verði næsta mánudag.

Sama dag verður næsta skref tekið í afléttingu samkomubanns. Þá verður skemmtistöðum og líkamsræktarstöðvum leyft að opna aftur ásamt því að 200 manns verði leyft að koma saman.

Þar að auki mega tónlistarmenn halda tónleika á ný frá og með mánudeginum 25. maí.