Land­læknir hefur birt frétt á vef sínum um ó­þekkta tegund lungna­bólgu sem upp hefur komið í Kína. Í fréttinni segir að Al­þjóða­heil­brigðis­mála­stofnunin (WHO) og Sótt­varnar­stofnun Evrópu (ECDC) hafi vakið at­hygli á að hóp­sýking hafi komið upp í borginni Wu­han í suður Kína.

Á undan­förnum tveimur vikum hefur sýkingin verið stað­fest hjá 41 einum ein­stak­lingi í Kína og hefur einn látist. Landlæknir segir að ein­staklingarnir hafi að því er virðist allir smitast á matar­markaði í borginni, en ekki hefur verið stað­fest að smit hafi borist á milli manna.

Hvorki er til bóluefni eða lyf við lungnabólgunni.

Upplýsi lækni um ferðalög til Kína

BBC fjallar um lungna­bólguna á vef sínum í dag. Þar segir að ein­kenni veiru­sýkinga á borð við þessa geti valdið ýmsum ein­kennum; allt frá því að líkjast vægu kvefi yfir í að vera ban­væn.

„Ekki er þörf á að allir ein­staklingar leiti til heil­brigðis­kerfisins sem ný­lega hafa verið í Kína og fá kvef eða hósta,“ segir í frétt Land­læknis. Ein­staklingar sem ferðast hingað til lands frá Wu­han og leita til læknis með kvef, hósta og hita eru þó beðnir um að upp­lýsa lækninn sinn um ferðir sínar. Heilsugæslur og smitsjúkdómalæknar hafa verið upplýstir um veikindin og einkenni þeirra.

Þá segir Landlæknir að ekki sé ástæða til neinna sértækra aðgerða á borð við ferðatakmarkanir til suðu Kína.

Berst líklega í gegnum dýr

Lungna­bólgan er sögð or­sakast af nýrri tegund kóróna­veiru, en það var kóróna­veira sem olli SARS lungna­bólgunni sem kom upp í Kína árið 2002 og vakti mikinn ótta. Í fyrstu var óttast að um væri að ræða ný til­felli SARS en svo virðist þó vera að þessi veira sé frá­brugðin þeirri sem veldur SARS.

Lík­legast þykir að veikindin hafi borist í fólk í gegnum dýr en sýkingarnar hafa verið tengdar við markað í Wu­han sem sér­hæfir sig í sölu á sjávar­fangi. Í frétt BBC segir að sjávar­spen­dýr séu þekkt fyrir að bera kóróna­veirur, en markaðurinn selur einnig lifandi dýr á borð við kjúk­linga, leður­blökur, kanínur og snáka. Mun lík­legra sé að það séu þau dýr sem hafi borið veiruna í fólk.

Hætta á að veiran stökkbreytist

Sér­fræðingar sem BBC vitna til í fréttinni segja að það sé já­kvætt að sýkingin breiðist ekki hratt út á þessari stundu. Aftur á móti sé á­vallt á­stæða til þess að hafa á­hyggjur þegar ný tegund af veiru berst úr dýrum í fólk.

„Þegar veiran hefur komist í frumur í fólki er hætta á að hún stökk­breytist á þann hátt að hún eigi auð­veldara með að dreifast á milli og verði hættu­legri,“ segir Jon­a­t­han Ball, prófessor við Há­skólann í Notting­ham í sam­tali við BBC. Of lítið sé þó vitað til þess að segja til um hversu miklar áhyggjur fólk þurfi að hafa af sjúkdómnum.