Landlæknir hefur birt frétt á vef sínum um óþekkta tegund lungnabólgu sem upp hefur komið í Kína. Í fréttinni segir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnarstofnun Evrópu (ECDC) hafi vakið athygli á að hópsýking hafi komið upp í borginni Wuhan í suður Kína.
Á undanförnum tveimur vikum hefur sýkingin verið staðfest hjá 41 einum einstaklingi í Kína og hefur einn látist. Landlæknir segir að einstaklingarnir hafi að því er virðist allir smitast á matarmarkaði í borginni, en ekki hefur verið staðfest að smit hafi borist á milli manna.
Hvorki er til bóluefni eða lyf við lungnabólgunni.
Upplýsi lækni um ferðalög til Kína
BBC fjallar um lungnabólguna á vef sínum í dag. Þar segir að einkenni veirusýkinga á borð við þessa geti valdið ýmsum einkennum; allt frá því að líkjast vægu kvefi yfir í að vera banvæn.
„Ekki er þörf á að allir einstaklingar leiti til heilbrigðiskerfisins sem nýlega hafa verið í Kína og fá kvef eða hósta,“ segir í frétt Landlæknis. Einstaklingar sem ferðast hingað til lands frá Wuhan og leita til læknis með kvef, hósta og hita eru þó beðnir um að upplýsa lækninn sinn um ferðir sínar. Heilsugæslur og smitsjúkdómalæknar hafa verið upplýstir um veikindin og einkenni þeirra.
Þá segir Landlæknir að ekki sé ástæða til neinna sértækra aðgerða á borð við ferðatakmarkanir til suðu Kína.
Berst líklega í gegnum dýr
Lungnabólgan er sögð orsakast af nýrri tegund kórónaveiru, en það var kórónaveira sem olli SARS lungnabólgunni sem kom upp í Kína árið 2002 og vakti mikinn ótta. Í fyrstu var óttast að um væri að ræða ný tilfelli SARS en svo virðist þó vera að þessi veira sé frábrugðin þeirri sem veldur SARS.
Líklegast þykir að veikindin hafi borist í fólk í gegnum dýr en sýkingarnar hafa verið tengdar við markað í Wuhan sem sérhæfir sig í sölu á sjávarfangi. Í frétt BBC segir að sjávarspendýr séu þekkt fyrir að bera kórónaveirur, en markaðurinn selur einnig lifandi dýr á borð við kjúklinga, leðurblökur, kanínur og snáka. Mun líklegra sé að það séu þau dýr sem hafi borið veiruna í fólk.
Hætta á að veiran stökkbreytist
Sérfræðingar sem BBC vitna til í fréttinni segja að það sé jákvætt að sýkingin breiðist ekki hratt út á þessari stundu. Aftur á móti sé ávallt ástæða til þess að hafa áhyggjur þegar ný tegund af veiru berst úr dýrum í fólk.
„Þegar veiran hefur komist í frumur í fólki er hætta á að hún stökkbreytist á þann hátt að hún eigi auðveldara með að dreifast á milli og verði hættulegri,“ segir Jonathan Ball, prófessor við Háskólann í Nottingham í samtali við BBC. Of lítið sé þó vitað til þess að segja til um hversu miklar áhyggjur fólk þurfi að hafa af sjúkdómnum.