Ef að ferðamaður á Íslandi myndi fá flugmann til þess að koma og sækja sig á Reykjavíkurflugvöll þyrfti hann einugis að greiða lendingargjald ef flugvélin myndi dvelja skemur en sex klukkutíma á vellinum. Engin stæðisgjöld eru greidd fyrir dvöl sem er styttri en sex klukkutímar. Ekki þarf heldur að greiða farþegagjöld þar sem flugmenn og áhöfn eru undanskilin slíku.

Fyrir vél af gerðinni Cessna Citation M2 ætti lendingargjald að vera miðað við 3800 kílógrömm en rukkað er 1330 fyrir hver 1000 kg. Þannig myndi sú lending kosta í kringum 5000 krónur ef dvalið væri skemur er í sex klukkutíma. Þessir útreikningar byggja á gjaldskrá Isavia, en félgaið hefur staðfest að þeir séu réttir.

Nokkuð hefur borið á aukningu þess að ferðamenn nýti sér Reykjavíkurflugvöll til þess að lenda einkaþotum sínum, en í morgun greindi Fréttablaðið frá því að fimm daga stæði fyrir einka­flug­vél á Reykja­víkur­flug­velli kosti minna en stæði fyrir bíl í bíla­kjallara í mið­bænum.

Dæmið sem var tekið varðaði Cessna Citation M2 vél sem er einkaflugvél í minni kantinum. Vélin tekur 7 farþega í heildina og kostar það samanlagt í kringum 35.485 krónur að lenda vélinni og geyma hana á Reykjavíkurflugvelli í 5 sólarhringa, en þar er miðað við að vélin sé í hámarksþyngd þegar hún lendir og því er um að ræða hámarksgjald sem slík flugvél greiðir. Það kostar aftur á móti 39.000 krónur að láta bíl standa í bílakjallara í Hafnartorgi í 5 sólarhringa.

Gjaldið hækkar þó ef um stærri flugvél er að ræða en sem dæmi má taka flugvél af gerðinni Bomardier Global 5000 sem tekur 16 farþega. Ef hún lendir með hámarksþyngd er gert ráð fyrir að kostnaður sé í kringum 200 þúsund krónur. Sé flugvélin hins vegar tóm og með lítið eldsneyti getur sá kostnaður fallið niður í sirka 90 þúsund krónur. Taka skal þó fram að slík flugvél kostar í kringum 7 milljarða króna.