Lög­reglunni á höfuð­borgar­svæðinu bárust tvær til­kynningar um byrlanir í mið­borg Reykja­víkur í gær. Þær voru fjórar helgina á undan og ekkert lát virðist á til­kynningum vegna gruns um slíkt.

Sam­kvæmt dag­bók lög­reglunnar var mikill erill í bænum í gær­kvöldi og í nótt. Mikið var um ölvun og þurfti lög­regla til að mynda að koma ein­stak­ling til að­stoðar sem var svo ölvaður að hann gat ekki staðið í fæturnar. Honum var ekið heim af lög­reglu.

Um hálf eitt í nótt kallaði dyra­vörður eftir að­stoð lög­reglu vegna líkams­á­rásar. Tveir voru hand­teknir á lög­reglu grunaðir um að hafa veist að dyra­vörðum. Þeim var sleppt að lokinni skýrslu­töku. Í gær­kvöldi, um klukkan sjö, var til­kynnt um slags­mál tveggja og er lög­regla mætti á staðinn voru á­rása­r­aðilar á bak og burt en brota­þoli enn á staðnum. Af honum var tekin skýrsla og stendur rann­sókn málsins nú yfir.

Átta öku­menn voru stöðvaðir vegna gruns um ölvunar­akstur og var einn þeirra gripinn á 87 kíló­metra hraða þar sem há­marks­hraði er 60. Einn var gripinn er sást til hans sofandi í bíl­stjóra­sæti bif­reiðar sinnar um klukkan hálf sex í gær­kvöldi, Að sögn lög­reglu lá af honum sterk á­fengis­lykt og við öndunar­próf kom í ljós að hann var ölvaður og lyklarnir því teknir af honum.

Mikið var um ölvun í gær­kvöldi og nótt.
Fréttablaðið/Kolbeinn Tumi

Auk ölvunar­aksturs var tals­vert um hraða­akstur í gær og nótt. Í götu í Hafnar­firði þar sem há­marks­hraði er 80 var öku­maður stöðvaður um korter í fjögur í nótt á 123 kíló­metra hraða. Hann taldi lög­reglu ekki hafa mælt hraðann rétt, hann hafi í raun verið á 135 kíló­metra hraða. Hann var bæði undir á­hrifum á­fengis og vímu­efna, auk þess sem hann ók á út­runni skír­teini. Hann var hand­tekinn og látinn gefa blóð- og þvag­sýni en síðan sleppt.