Aldrei hafa fleiri látist hér á landi vegna lyfja en í fyrra. Ópíóíðafíkn er stöðugt vaxandi vandamál. Samkvæmt Embætti landlæknis létust 46 manns af ofskammti lyfja, níu fleiri en árið áður. Tíu þeirra létust eftir sjálfsvíg.

„Við sjáum ekki lát á þróuninni í ópíóíðafíkn,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri Vogs og framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, í viðtali við Læknablaðið. Margt hafi verið gert til að sporna við útskrift ópíóíða, til að mynda hafi lögum verið breytt þannig að lyfjafræðingar gætu skipt upp pökkum og afhent minna magn.

Valgerður segir það mikilvægt að heilbrigðisstarfsmenn átti sig á því að fólk sem er háð ópíóíðum líti ekki endilega á sig þannig að það sé haldið fíkn og uppfylli ekki staðal­ímynd fólks með fíkn. Greiningar séu mikilvægar.

„Ávísun ópíóíða við langvinnum verkjum getur verið vítahringur fyrir marga, líka án þess að um fíkn sé að ræða. Lyfjagjöfin heldur áfram en aldrei fara verkirnir,“ segir Valgerður og bætir við að fólk þurfi á öðrum úrræðum en lyfjum að halda. Fólk með fíknisjúkdóm sé að deyja allt of ungt og við því þurfi að bregðast með því að hafa meðferðarúrræði opin fyrir það.

Valgerður segir að læknar, sem og almenningur, þurfi leiðbeiningar í þessum málum. Læknar þurfi að meta áhættu á fíkn og gera greiningar.