Minnst 130 liggja í valnum og hátt í þúsund eru særðir í átökum Ísraela og Palestínumanna síðustu daga, af þeim látnu eru átta Ísraelar. Af þeim 122 Palestínumönnum sem hafa látið lífið eru 31 barn.

Þrátt fyrir ákall alþjóðasamfélagsins um að átökunum verði hætt hefur Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, heitið því að árásum verði haldið áfram „eins lengi og þörf er á“. Bætti hann við að Hamas-samtökin, sem og „aðrir hryðjuverkahópar“ muni gjalda árásir sínar dýru verði. Er hann að íhuga að fangelsa þá sem taka þátt í uppþotum í óákveðinn tíma, án ákæru.

Í fyrrinótt skutu Hamas um 250 flugskeytum að ísraelsku borgunum Ashkelon, Beersheba og Yavne. Fjöldi borgara leitaði sér skjóls í loftvarnarbyrgjum en engar fréttir hafa borist af mannfalli. Ísraelar svöruðu með loftárásum og stórskotahríð. BBC hefur talsmanni ísraelska hersins að markmið næturinnar hafi verið að eyða undirgöngum á vegum skæruliða Hamas, en engar hersveitir hafi farið inn á Gasasvæðið. Ísraelar segja jafnframt að fjöldi þeirra sem hafi látist hafi verið skæruliðar og sumir hafi látist af völdum gallaðra eldflauga sem hafi átt að skjóta á Ísrael.

Ísraelsher hefur sent hersveitir og skriðdreka að landamærum Gasa, segja þeir að það komi til greina að senda inn herlið. Hamas samtökin segjast vera tilbúin að hætta öllum árásum ef alþjóðasamfélagið þrýsti á Ísraela að hætta „öllum hernaðarumsvifum“ við al-Aqsa moskuna í Jerúsalem.

BBC hefur eftir Mark Regev, aðstoðarmanni Netanjahús, að boltinn sé hjá Hamas. „Við vildum ekki þessi átök, en þar sem þau eru hafin þá þarf þeim að ljúka með friði. Það er aðeins hægt með því að Ísrael ráði niðurlögum Hamas, hernaðarinnviðum þeirra og stjórnar.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra minnir á orð Guterres um að aðilar eigi að fara í vopnahlé strax.
Fréttablaðið/Ernir

Fjórir hafa látið lífið á Vesturbakkanum. Ísraelsher skaut viðvörunarskotum á mótmælendur sem fóru yfir landamærin frá Líbanon. Sjónvarpsstöð í eigu Hezbollah-samtakanna sagði að einn hefði særst. Samkvæmt Al-Jazeera kom til átaka á milli jórdönsku lögreglunnar og mótmælenda sem ætluðu sér að fara inn á Vesturbakkann.

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt Ísraela og Palestínumenn til að semja umsvifalaust um vopnahlé. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók undir þetta eftir fund ríkisstjórnarinnar í gær.

„Ég náttúrulega bara minni á orð Guterres sem hvetur aðila til að fara í vopnahlé strax og ég tek eindregið undir hans orð, því fórnarlömbin í þessu eru almennir borgarar og börn þar á meðal,“ sagði Katrín.

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sendi í gærmorgun frá sér tilkynningu þar sem framferði Ísraelsmanna er fordæmt. Félagið Ísland-Palestína hefur boðað til mótmæla á Austurvelli í dag, laugardag, klukkan 13.00. ■