Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að það hafi ekkert komið fram sem gefi til kynna að Þorsteinn Gunnarsson geti sem nýr formaður kærunefndar útlendingamála ekki tryggt sjálfstæði nefndarinnar. No Borders Iceland, auk fleiri samtaka, afhentu ráðherra áskorun í síðustu viku um að afturkalla skipun Þorsteins á grundvelli þess að störf hans hjá Útlendingastofnun geri hann vanhæfan.

„Þorsteinn sá ekkert óeðlilegt við að vísa kasóléttri konu úr landi þvert á vottorð frá fæðingardeild, en ÚTL hafði í höndunum fit-to-fly vottorð frá lækni sem hafði ekki skoðað konuna í persónu. Seinna staðfesti embætti landlæknis - að framkvæmdin var kolólögleg og brot á siðareglum,“ segir í áskorun No Borders.

Áslaug Arna sagði við Fréttablaðið að loknum ríkisstjórnarfundi fyrr í dag að störf hans hafi verið skoðuð.

„Hann var skipaður af sérstakri hæfisnefnd sem mat hann hæfastan úr hópi þeirra umsækjenda sem sóttu um þetta starf. Fyrri störf hans hjá Útlendingastofnun komu þar vitaskuld til skoðunar,“ segir hún. „Hæfisnefndin setti ekki út á störf hans á þeim vettvangi og það hefur ekkert sem fram hefur komið sem gerir það að verkum að Þorsteini sé ekki treystandi til að tryggja sjálfstæði nefndarinnar.“