Bikarmeistaramót í kraftlyftingum fór fram á Akureyri í dag. Kraftlyftingakonan Hulda B. Waage kom sá og sigraði í kvennaflokki. Hún setti nýtt Íslandsmet í samanlögðu og annað í hnébeygju. Hulda er vegan og neytir fyrir vikið engra dýraafurða. „Ekkert kjöt, engin mjólk, engin egg, ekkert hunang, engar pöddur og engin ólögleg lyf,“ skrifar Hulda í færslu sem hún deildi af þessu tilefni inn á Facebook-hópinn Vegan Ísland.

Hulda segist í samtali við Fréttablaðið ekki upplifa mikla fordóma fyrir því að vera vegan, þó hún sé í kraftlyftingum. „Það var kannski bara fyrst – þá var fólk hissa. Núna er meira bara verið að grínast,“ segir Hulda sem ákvað, eftir að hafa séð myndina Earthlings, að gerast alveg vegan. Það var fyrir fjórum árum. „Ég tók þá ákvörðun að lifa samkvæmt minni sannfæringu.“

Hulda var í dag stigahæsta konan í kraftlyftingum annað árið í röð og bikarmeistari þriðja árið í röð. Hún lyfti 230 kílóum í hnébeygju og setti nýtt Íslandsmet. 140 kílóum lyfti hún í bekkpressu, 180 í réttstöðulyftu og því samtals 550 kílóum. Hún náði um leið lágmörkum til að fara á heimsmeistaramótið í kraftlyftingum á næsta ári. Á morgun fer fram bikarmeistaramót í bekkpressu en þá vonast Hulda til að lyfta 150 kílóum í bekkpressu. Það hafi hún margoft gert á æfingum.

Hefur lyft meiri þyngdum

Hún segist einnig eiga nokkuð inni í réttstöðulyftu, þar sem meiðsli í baki eftir barnsburð, hafi gert henni erfitt fyrir. „Bakið er ekki upp á hundrað. En við erum búin að vinna svo vel að þetta er besti samanlagði árangurinn hingað til,“ segir hún og tekur fram að hún standi ekki ein að árangrinum. Hún sé með öflugt teymi að baki sér.

Hulda segir, aðspurð hvernig mataræði hennar sé frábrugðið öðrum sem eru vegan, að líklega sé mataræðið hennar meira úthugsað en flestra. „Almenningur, sem er ekki að æfa eins mikið er að borða meiri hefðbundinn mat. Hjá mér er skipulagið meira, eins og hjá öðrum sem eru að keppa á þessu leveli,“ segir hún. „Ég væri til í að borða kökur og ís en það er ekki í boði,“ segir hún og hlær.

Hulda hefur æft kraftlyftingar frá árinu 2011 en tók sér frí árinu 2013 og 2014, til að ganga með yngri dóttur sína. Í dag vann hún sinn þyngdarflokk, sem er -84 kíló. Hún skoraði 496 „virk stig“, sem var besti árangur allra kvenna á mótinu. Hún er að auki stigahæsta kona landsins í kraftlyftingum, þegar allt árið er tekið.

Evrópumeistaramótið í kraftlyftingum fer fram í Tékklandi í apríl og þar verður Hulda á meðal keppenda. Svo tekur við heimsmeistaramót í bekkpressu í Tókýó í Japan, í maí, en til þess að komast þangað þarf hún að vera búin að lyfta 150 kílóum. Það hyggst hún gera á morgun. Þriðja stórmótið er svo heimsmeistaramótið í kraftlyftingum í Dubai næsta sumar. Það er því mikið fram undan hjá Huldu.