Enginn greindist með kórónaveiruna sem veldur COVID-19 sjúkdómnum innanlands í gær en þetta er fimmti dagurinn í röð sem ekkert innanlandssmit greinist.

Einn einstaklingur er nú kominn úr einangrun og eru því 14 í einangrun með virkt smit. Einstaklingum í sóttkví fækkar um þrjá milli daga og eru nú 17 í sóttkví. Alls voru tæplega 450 sýni tekin innanlands í gær.

Á landamærunum greindist einn einstaklingur með veiruna en beðið er mótefnamælingar úr því sýni. Landamærasmitið sem greint var frá í gær reyndist vera gamalt smit. Alls eru nú 719 í skimunarsóttkví en þeim fækkar um tæplega 200 milli daga. Rúmlega 150 sýni voru tekin á landamærunum í gær.

Nýgengi innanlandssmita er nú aðeins 0,3 og 3,6 á landamærunum en miðað er við fjórtán daga nýgengi á hverja 100 þúsund íbúa.

Rúmlega 12,5 þúsund lokið bólusetningu

Búið er að bólusetja 12.564 einstaklinga að fullu og er bólusetning hafin hjá 7.029 einstaklingum til viðbótar en rúmlega 700 einstaklingar voru bólusettir í gær, annars vegar með bóluefni Pfizer og hins vegar með bóluefni AstraZeneca.

Allir þeir sem hafa lokið bólusetningu hafa annað hvort verið bólusettir með bóluefni Pfizer, rúmlega ellefu þúsund, eða bóluefni Moderna, rúmlega tólf hundruð.

Að því er kemur fram á vef Lyfjastofnunar hafa 376 tilkynningar borist vegna gruns um aukaverkun í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19, 175 vegna bóluefnis Pfizer, þar af sextán alvarlegar, 127 vegna bóluefnis Moderna, þar af þrjár alvarlegar, og 74 vegna bóluefnis AstraZeneca, þar af tvær alvarlegar.