Sé rýnt í ársreikninga Seltjarnarnesbæjar kemur í ljós að uppsafnaður taprekstur á A-hluta bæjarsjóðs Seltjarnarness 2015 til 2021 nemur tæpum 1,1 milljarði króna. Hefði útsvarsprósentan verið 14,48 eins og minnihlutinn í bæjarstjórn hefur lagt til, í stað 13,7 prósenta, væri reksturinn jákvæður um tæpar 19 milljónir á sama tímabili.

Í upphafi þessa kjörtímabils námu heildarskuldir bæjarins, fyrir utan lífeyrisskuldbindingar, tæpum milljarði. Áætlaðar skuldir nú um áramótin eru 4,3 milljarðar.

Á tímabilinu hefur bærinn ráðist í byggingu hjúkrunarheimilis og stækkun íþróttamiðstöðvar, sem skapa tekjur og skýra hluta skuldaaukningarinnar, en viðvarandi taprekstur bæjarsjóðs skýrir hluta af 3,3 milljarða skuldaaukningu á kjörtímabilinu.

Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslistans, segir að það hafi ekki komið fram raunhæf fjárhagsáætlun fyrr en í faraldrinum.

„Ég samþykkti hana þá vegna þess að ég taldi hana gefa rétta mynd af rekstrinum. Nú eru hins vegar kosningar í vor og sama vitleysan byrjuð upp á nýtt. Þessi 200 milljóna skekkja er 5 prósent af rekstri bæjarins. Ekkert heimili gæti leyft sér svona langvarandi skuldasöfnun fyrir daglegum rekstri.“