Björn Leví Gunnars­son, þing­maður Pírata, segir mál­flutning dóms­mála­ráð­herra Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur um frum­varp Pírata um af­glæpa­væðingu neyslu­skammta vera ó­heiðar­legan og villandi. Ás­laug sagði í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í dag að margt hafi vantað upp á frum­varpið. Björn segir ekkert hafa vantað upp á frumvarpið.

„Þessi dóms­mála­ráð­herra bullar bara,“ sagði Björn Leví á Face­book í dag. Ás­laug sagði meðal annars að í frum­varp Pírata, sem var fellt á síðasta þing­fundi síðasta þings, hafi vantað skil­greiningu á neyslu­skömmtum og að þar hefði ekki verið horft til lyf­seðils­skyldra lyfja. Einnig að það þyrfti að „skoða betur hvernig á að gera upp­tæka neyslu­skammta hjá börnum og fleira“.

Allt verið tekið fram í áliti

Björn Leví benti á það að minni­hluti vel­ferðar­nefndar hefði skilað af sér nefndar­á­liti þar sem fjallað er um alla þessa þætti sem Ás­laug sagði vanta í frum­varpið. Um lyfin hafi sagt í nefndar­á­litinu: „Minni hlutinn tekur undir þau sjónar­mið að refsi­leysi vörslu neyslu­skammta eigi að taka til allra efna sem vímu­efna­neyt­endur kunna að neyta, hvort sem um ræðir lyf­seðils­skyld lyf skv. 3. gr. eða á­vana- og fíkni­efni skv. 2. gr. Leggur minni hlutinn því til breytingar þess efnis að varsla efna verði gerð refsi­laus á sama hátt".

Þessi dómsmálaráðherra bullar bara: "Áslaug segir að ýmislegt hafi vantað upp á það. „Bæði að horfa til lyfja sem og...

Posted by Björn Leví Gunnarsson on Saturday, July 11, 2020

Þá bendir hann á að í breytingar­til­lögu sem lögð hafi verið fram hafi einnig mátt finna á­kvæði sem fengi ráð­herra heimild til að leggja fram reglu­gerðir sem kveði ná­kvæm­lega á um hvaða magn efna skuli teljast til neyslu­skammts hverju sinni. Um börn og neyslu­skammta hafi þá staðið í nefndar­á­litinu: „Minni hlutinn telur því á­stæðu til að bæta við laga­heimild fyrir lög­reglu til þess að hald­leggja fíkni­efni í fórum barns þegar slíkt inn­grip sam­ræmist hags­munum barnsins."

„Það er eins og ráð­herra hafi ekki lesið hverju vinna þingsins skilaði í breytinga­til­lögum á frum­varpið og gagn­rýnir bara texta frum­varpsins eins og það var lagt fram. Það vantaði ekkert. Það var búið að bregðast við öllum á­bendingum,“ segir Björn Leví. „Svona mál­flutningur ráð­herra er bein­línis ó­heiðar­legur og villandi, því hún á að vita betur en þetta ... en segir það samt.“

„Það eru ná­kvæm­lega svona stjórn­mál sem halda öllu í heljar­greipum (bók­staf­lega mtt þessa frum­varps). Svona frjáls­leg með­höndlun á stað­reyndum málsins er sand­kassa­leikur sem kostar manns­líf, vegna þess að vanda­málið er enn til staðar. Vanda­mál sem væri hægt að byrja að leysa ef frum­varp Pírata hefði verið sam­þykkt,“ segir hann loks.

Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dómsmálaráðherra.
Fréttablaðið/Stefán

Munu vinna í samráði við flutningsmenn

Ás­laug Arna sagði þá í kvöld­fréttunum, þegar hún var spurð að því hvort hún ætlaði að leggja fram frum­varp um af­glæpa­væðingu á næsta þingi, að það væri í verka­hring heil­brigðis­ráð­herra að leggja fram frum­varp um þessi mál. Þar þyrfti þó að skoða margt innan hennar ráðu­neytis og hún myndi leggjast í þá vinnu á næsta þingi.

Hún sagði að þessa þætti sem vantaði í frum­varp Pírata myndi ríkis­stjórnin skoða „og það er auð­vitað eitt­hvað sem við gerum í fullu sam­ráði við þá flutnings­menn frum­varpsins“.