Fimm vitni voru kölluð til í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun vegna aðalmeðferðar í meiðyrðamáli Ingólfs Þórarinssonar, eða Ingós veðurguðs, gegn Sindra Þór Sigríðarsyni.

Athygli vakti að ekkert vitnanna lýsti persónulegri reynslu af Ingólfi fyrir héraðsdómi.

Aðalmeðferð málsins hófst í morgun og stóð til klukkan rúmlega eitt í dag. Sindri Þór er einn þeirra fimm sem Ingó kærði vegna meintra ærumeiðandi ummæla á netinu í kjölfar harðra ásakana í garð Ingós vegna meintra kynferðisbrota.

Óbein vitni

Vitnin fimm lýstu í flestum tilfellum upplifun og reynslu annarra af samskiptum við Ingó og voru þær frásagnir flestar frá árunum 2008 til 2009. Þá var Ingó, sem er fæddur 1986, ekki orðinn 25 ára.

Þá var einnig skýrsla tekin af Sindra Þór sjálfum og sagðist hann talsvert oft hafa heyrt sögusagnir um Ingó. Sú fyrsta hafi verið árið 2008.

Aðspurður sagðist Sindri Þór ekki hafa rætt sjálfur við þær konur sem stigu fram og ásökuðu Ingó. Honum hafi ekki þótt það viðeigandi.

Ingó gaf skýrslu fyrir dómi í morgun.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Talar ekki undir rós

Aðspurður hvort hann hefði getað verið hófstilltari í orðavali í ummælum sínum um Ingó sagðist Sindri Þór ekki vera týpan til að tala undir rós. „Ég sá ekki ástæðu til þess. Ég var að lýsa því sem ég hafði orðið áskynja í umræðunni.“

Ummælin sem um ræðir og Sindri Þór lét falla á samfélagsmiðlum eru eftirfarandi:

„Maður sem er svo þekktur fyrir að ríða börnum“

„Hvað finnst þér réttlætanlegt að fullorðinn maður nýti frægð sína og valdastöðu til að ríða mörgum börnum“

„Skemmtikraftur sem hefur stundað það síðastliðin 12-13 ár að ríða börnum“

„trallað í skítbeisikk kassagítarútgáfu af manni sem ríður börnum“

„Til að vinna örugglega unlikable keppnina þá splæsir eigandinn í barnaríðinginn.

Vandað orðaval

Sindri Þór sagði jafnframt að hann hefði vandað orðavalið frekar en að fara fram úr sér því ef hann raunverulega hafi ætlað að særa æru Ingós þá hefði verið auðvelt að vísa til verstu frásagnanna sem fram höfðu komið.

Að sögn Sindra Þórs var hann að benda á að það að sænga hjá börnum á aldrinum 15 til 18 ára væri refsilaust í íslenskum lögum.

Bílastæðavakt á Samfés

Þórhildur Rán Torfadóttir var meðal vitna í héraðsdómi í morgun. Hún greindi sögunni á bakvið ummæli sín við Twitter-færslu Sindra Þórs um málið.

Þórhildur greindi frá þremur tilvikum frá árunum 2007, 2008 og 2009 þar sem Ingó á að hafa verið kynferðislega ágengur við vinkonur sínar sem þá voru í kringum 17 ára og Ingó sjálfur rétt rúmlega tvítugur.

Ágengnin fólst meðal í rafrænum skilaboðum sem Ingó á að hafa sent.

Næst bar Elísa Sveinsdóttir vitni og greindi meðal annars frá því þegar hún var að vinna á Samfés balli árið 2009. Þá hafi starfsfólkið þar ákveðið að setja upp sérstaka bílastæðavakt til að koma í veg fyrir að Ingó, sem var að spila á ballinu, gæti tekið ungar stelpur upp í bíl hjá sér. Sú saga hafi gengið manna á milli vegna annars balls sem fór fram nokkrum dögum áður.

Elísa sagði jafnframt að það hafi verið óskrifuð regla að ráða Ingó ekki til að spila á böllum til að vernda börn gegn áreiti.

Áreiti í gegnum skilaboð

Daníel Ingi Traustason var einn vitna en hans frásögn var sú nýlegasta frá árinu 2014. Hann sagði frá menntaskólasamkomu þar sem Ingó á að hafa komið og ætlað að pikka upp vinkonu hans sem var ofurölvi.

Daníel Ingi segir hann og vini sína hafa tekið ákvörðun um að hleypa Ingó ekki að vinkonunni þar sem hún hafi ekki verið í ástandi til að taka neinar ákvarðanir um framhaldið. Þeir hafi því neitað honum um inngöngu í samkomuna. Þá hafi þeir jafnframt spurt Ingó hvað hann væri að gera að hitta 16 til 17 ára stelpu, það hafi komið fát á hann og hann hafi farið í kjölfarið.

Hlynur Hallgrímsson greindi frá sögu sem hann hafði heyrt frá systur sinni, sem átti vinkonu sem átti að hafa haft í kynferðislegu sambandi við Ingó. Aðspurður hvort hann hafi rætt málið sjálfur við umrædda stelpu sagði Hlynur svo ekki vera.

Fimmta vitnið, Margrét Ásta, lýsti atviki sem átti sér stað í kringum 2008 til 2009 þegar Ingó á að hafa verið að áreita vinkonu hennar með skilaboðum. Aðspurð segir Margrét Ásta að það hafi ekki farið á milli mála að Ingó hafi verið að sýna vinkonu hennar kynferðislegan áhuga.

Ingó og Sindri Þór í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Tjáningafrelsi rúmt en ekki óheft

Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingós, flutti því næst lokaorð. Hún sagði nauðsynlegt að gerður yrði greinarmunur á gildisdómum og staðhæfingum um staðreyndir í málinu.

Sum ummæla Sindra Þórs væru skólabókadæmi um refsiverða aðdróttun gagnvart Ingó, hann hafi ekki gerst sekur um þá hluti sem ummælin snéru að.

Þá hafi enginn borið á Ingó þær ásakanir að hann hafi átt samræði við börn nema Sindri Þór og að engin gögn lægju fyrir sem staðfestu ummæli hans.

Auður Björg sagði jafnframt að öll vitnin fimm hafi lýst kjaftasögum, ekkert þeirra hafi lýst persónulegum samskiptum. Þá þyrfti að líta til þess að þó tjáningafrelsið væri rúmt væri það ekki óheft.

Ingó fer fram á að ummæli Sindra Þórs verði dæmd dauð og ómerk þá gerir hann miskabótakröfu að upphæð þremur milljónum króna og að upphæðin væri meðal annars vegna skerðingar á atvinnumöguleikum hans.

Einstaklingar börn til 18 ára

Lögmaður Sindra Þórs, Sigrún Jóhannsdóttir, sagði ummæli Sindra Þórs vera mikilvægt innlegg í þjóðfélagsumræðuna. Hann væri meðal annars að gagnrýna löggjafann fyrir að gera fullorðnum karlmönnum kleift að sænga hjá börnum á aldrinum 15 til 18 ára, algjörlega refsilaust.

Þá sagði Sigrún óbein vitni hafa sönnunargildi, það hefði sýnt sig áður. Vitnin fimm hafi verið valin af handahófi úr tugum einstaklinga. Sigrún sagði jafnframt að þrátt fyrir að lögmaður Ingós hafi nefnt að unglingar og ungmenni á aldrinum 15 til 18 ári geti seint talist börn sé það óumdeilt að einstaklingar séu börn til 18 ára aldurs.

Dómur í málinu verður kveðinn upp á næstu dögum.