Menntamálaráðherra hefur enn ekki gefið út reglugerð um tímabundna heimild til greiðslu sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla.

Alþingi samþykkti ýmsar aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins þann 11. maí síðastliðinn, þar á meðal nýtt bráðabirgðaákvæði í fjölmiðlalög um heimild til að veita fjölmiðlum rekstrarstuðning. Hefur ráðherra heimild til að verja 400 milljónum til þessa stuðnings en þegar er gert ráð fyrir þeirri fjárhæð í fjárlögum yfirstandandi árs vegna fjölmiðlafrumvarpsins umdeilda sem enn er til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd.

Nýsamþykkt bráðabirgðaákvæði tók töluverðum breytingum í meðförum þingsins og ráðherra setti nánari fyrirmæli um ákvörðun styrkfjárhæða en ráðgert var í frumvarpinu, meðal annars að fjárhæð taki ekki aðeins mið af fjölda stöðugilda á ritstjórnum heldur einnig af útgáfutíðni og fjölbreytileika. Endanlegt hlutfall styrkja skuli ráðast af fjölda umsókna. Þá var fellt brott ákvæði frumvarpsins um að stuðningur verði hlutfallslega meiri til minni fjölmiðla.

Ekki náðist í Lilju Alfreðsdóttur við vinnslu fréttarinnar og því ekki ljóst hvenær vænta megi reglugerðarinnar sem hið nýja ákvæði kveður á um, en samkvæmt því þarf úthlutun rekstrarstuðnings að hafa farið fram fyrir 1. september næstkomandi.