Ekkert bendir til þess að Bárðarbunga muni gjósa á næstu misserum þrátt fyrir að skjálftavirkni hafi verið þónokkur á svæðinu síðustu mánuði og ár. Jarðskjálfti af stærðinni 3,5 mældist í norðanverðri Bárðarbunguöskjunni í nótt og greindust síðan fimm eftirskjálftar samkvæmt náttúruvársérfræðingi Veðurstofu Íslands.

„Skjálftinn var alveg stór en ekkert miðað við þessa stóru Bárðarbunguskjálfta sem hafa verið að koma, þeir hafa verið alveg á milli 4 og 4,5 að stærð,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir, náttúruvársérfræðingur Veðurstofu Íslands. Hún segist hafa staðsett fimm eftirskjálfta en það telst mjög lítil eftirskjálftavirkni.

Gos varð í Holuhrauni árið 2014. Um leið seig Bárðarbunga mikið og er talið að kvikan í Holuhraunsgosinu hafi komið úr kvikuhólfi Bárðarbungu.

Bárðarbunga er í Vatnajökli og er víðáttumesta eldstöð landsins. Hún er talin vera um 200 kílómetra löng og allt að 25 kílómetrar að breidd. Reglulegir jarðskjálftar hafa orðið á svæðinu síðustu ár en Sigurdís segir skjálftann í nótt í takti við hefðbundið mynstur eldstöðvarinnar. „Þetta er það sem við erum alltaf að sjá þarna: það kemur einn svona stór skjálfti og nokkrir litlir á eftir. Svo verður rólegt í eldstöðinni um hríð og þá kemur einn aftur.“

„Þannig þetta passar inn í þessa hegðun hjá eldstöðinni undanfarið,“ heldur hún áfram. „Fyrir gos var eldstöðin í svona svipuðum fasa í mjög langan tíma, einhverja tugi ára.“ Aðspurð segir hún því að ekkert bendi til að gos verði í eldstöðinni á næstunni. „Það er náttúrulega ekkert hægt að segja til um það en það eru engin merki um það eins og er. Þetta gæti vel verið fasi sem er í lengri tíma, að eldstöðin bæri svona á sér í stöku stórum skjálftum með nokkrum litlum í kjölfarið. Það er ekkert óvenjulegt við þetta.“