Ekkert barn hefur verið ættleitt frá útlöndum til Íslands á þessu ári, en engin dæmi eru um slíkt það sem af er þessari öld – og raunar einnig ef litið er til síðustu áratuganna fyrir aldamótin.

Ástæðu þessa má einkum rekja til þess að kínversk stjórnvöld hafa á seinni árum losað um hömlur á fjölda barna sem foreldrum þar í landi er heimilt að eignast og ala upp. Þar við bætist ótryggt ástand í austurhluta Evrópu, en fjöldi barna, einkum úr hópi Rómafólks sem er stærsti minnihlutahópur í Evrópu, hefur verið ættleiddur frá Tékklandi á síðustu árum.

Athygli vekur raunar hvað ættleiðingum hér á landi hefur fækkað mikið á þessari öld.

Árið 2007 voru yfir tuttugu börn ættleidd hingað til lands, langflest frá Kína, og næstu fimm árin voru kínversk börn í meirihluta þeirra sem hingað komu til nýrra foreldra, ef árið 2008 er undanskilið, en þá komu öll ættleiddu börnin, þrettán að tölu, frá Indlandi.

Síðasta áratuginn hafa flest börn komið frá Tékklandi, yfir tuttugu að tölu, og vekur athygli að aðeins eitt barn hefur komið frá Kína frá því árið 2016.

Allt bendir til þess að árið í ár skeri sig algerlega úr hvað þessar ættleiðingar varðar og að ekkert barn verði ættleitt frá útlöndum til Íslands.