Alma Möller landlæknir segir stöðuna í heilbrigðiskerfinu sjaldan verið þyngri frá upphafi Covid-19 faraldursins. Heilbrigðiskerfið vinni sem „einn maður“ en engu að síður hafi þurft að fresta aðgerðum sem þola bið en áskorunin sé mikil.
Þetta segir landlæknir í hádegisfréttum RÚV.
„Það er alveg ljóst að staðan hefur sjaldan eða aldrei verið þyngri frá því að faraldurinn hófst. Þar er auðvitað um að kenna bæði þessum mörgu smitum og mörgum sjúklingum sem þarf að sinna en líka því að fjöldi starfsmanna hefur þurft í einangrun og sóttkví.“
Nú eru 133 starfsmenn Landspítala í einangrun. Þá liggja 43 inni á spítalanum með Covid og á gjörgæslu eru sex, þar af fjórir í öndunarvél.
Hún segir að eins og staðan sé núna gangi bjartsýnustu spár um fjölda innlagna enn eftir en ef þeim fjölgar enn frekar verði það „gríðarleg áskorun fyrir Landspítala og heilbrigðiskerfið í heild sinni.“
Margt hafi verið gert til að mæta álaginu.
„Það er annars vegar verið að styrkja Landspítalann, gjörgæslur og legudeildir. Þar er verið að færa til fólk til innan spítalans, þar er verið að færa fólk frá öðrum stofnunum og úr einkarekna kerfinu og það er verið að breyta vaktafyrirkomulagi“, segir Alma.
„Það er alveg ljóst að þetta er mikil áskorun bæði til skemmri tíma og síðan til lengri tíma því að það er auðvitað verið að fresta ýmiss konar þjónustu eins og skurðaðgerðum sem þola bið. Það er ekkert annað að gera í stöðu sem þessari.“