Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að enn sé langt í land þegar kemur að því að uppræta kynbundið ofbeldi hér á landi. Þetta kom fram í máli Þorgerðar þegar störf þingsins voru rædd á Alþingi en 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi hófst í dag á alþjóðlegum degi gegn kynbundnu ofbeldi.
Marta Goðadóttir, herferða- og kynningastýra UN Women, sem tekur þátt í átakinu, greindi frá því í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag að tilkynningum um heimilisofbeldi hafi víða í heiminum fimmfaldast og alls hafi 240 milljónir kvenna verið beittar ofbeldi síðastliðna 12 mánuði.
Ofbeldi skuggahlið COVID-19
„Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni verður þriðja hver kona fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á ævi sinni um heim allan, oftast í nánum samböndum,“ sagði Þorgerður og bætti við að fleiri tilkynningar um heimilisofbeldi hafi borist í ár heldur en á sama tíma síðastliðin þrjú ár.
Staðan væri nú sérstaklega slæm í miðjum heimsfaraldri en UN Women hefðu bent á að konur og stúlkur um allan heim væru nú fastar heima með ofbeldismönnum sínum. Þá fá þolendur ofbeldis ekki þá þjónustu sem þarf vegna skorts á fjármagni en Þorgerður sagði að um væri að ræða grafalvarlega stöðu.
„Það er því miður svo að kynbundið ofbeldi er hrein og klár skuggahlið af COVID-19. Þessi ofbeldishrina er ekkert annað en skuggafaraldur. Langtímaafleiðingar af slíku ástandi eru augljósar og hljóta að eiga skilið mikla athygli af okkar hálfu hér á Alþingi,“ sagði Þorgerður og lagði til að unnið yrði að sérstökum aðgerðapakka til að koma í veg fyrir langtímaafleiðingar.
Ofbeldi stoppar ekki þegar faraldrinum lýkur
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, tók í svipaða strengi en hún sagði heimilið ekki lengur vera griðastaður fyrir margar konur, heldur orðinn hættustaður. Hún sagði enn fremur að þrátt fyrir að ofbeldið væri samtvinnað faraldrinum þá muni það ekki hverfa á sama tíma og faraldrinum lýkur.
„Ég hef miklar áhyggjur af því að hér sé fram komin þung félagsleg afleiðing af þessu ástandi og afleiðing sem gæti lifað áfram ef ekki er gripið til aðgerða,“ sagði Þorbjörg. Hún benti á að Ísland væri efst á lista Alþjóðaefnahafsráðsins um kynjajafnrétti en þrátt fyrir það væri jafnrétti ekki náð.
„Ofbeldi er skýrasta birtingarmyndin sem við sjáum um kynjaójafnrétti í samfélaginu,“ sagði hún enn fremur en hún sagði pólitík vera svarið við ofbeldi. „Okkar árangur í jafnréttismálum náðist ekki bara með tímanum. Tíminn leiddi okkur ekki hingað, biðin ekki heldur. Þessum breytingum var náð í gegn með baráttu og við þurfum að halda áfram.“
Ef þú hefur orðið fyrir ofbeldi eða þekkir til einhvers sem hefur orðið fyrir ofbeldi er hægt að óska eftir aðstoð með því að hringja í neyðarlínuna 112 eða óska eftir netspjalli á vefsíðu Neyðarlínunnar 112.is. Einnig er hægt að hringja í lögreglu á viðeigandi landsvæði eða senda lögreglu skilaboð á Fecebooksíðum lögreglunnar og lögregla hefur samband til baka. Þá er Kvennaatkvarfið með neyðarnúmerið 561-1205 sem er opið allan sólarhringinn. Nánari upplýsingar um aðstoð til þolenda má finna á vef heilsugæslunnar.