Sólborg Guðbrands­dótt­ir söng­kona og aðgerðarsinni sem þekkt er fyr­ir In­sta­gram-síðuna Fá­vita, barst fjöldi fyrirspurna frá ungu fólki sem var neitað um að kaupa neyðarpilluna í apóteki.

Sólborg sendi í kjölfarið fyrirspurn á Lyfjastofnun og umrætt apótek sem neitaði einstaklingum undir 18 ára aldur um neyðarpilluna.

Í svari Lyfjastofnunar kemur fram að engin aldurstakmörk eru í gildi um afhendingu lyfsins Postinor, eða neyðarpillunnar nema það að hana eigi ekki að nota fyrir fyrstu tíðablæðingar.

Þá segir að varðandi afhendingu lyfsins sé nauðsynlegt að lyfjafræðingur annist afgreiðslu lyfsins til að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar varðandi lyfið komist til skila.

Umrætt apótek svaraði einnig fyrirspurn Sólborgar en í svari þess kemur fram að verið sé að skoða málið innanhúss. „Hingað til höfum við farið eftir reglum sem við fengum frá Lyfjastofnun um 18 ára aldurstakmark á sölu á lausalyfjum. Ef svo er að engin aldurstakmörk eru á sölu á neyðarpillunni þá breytum við að sjálfsögðu verklagsreglum okkar."

Sólberg hvetur fólk til að hafa hátt. „Apótekin geta ekki falið sig á bak við það að svona séu reglurnar og mismunað ykkur á grundvelli aldurs."